Vignir með jafntefli í 8. umferð – mætir enn Rússa



Vignir Vatnar heldur áfram að ná hagstæðum úrslitum gegn stigahærri andstæðingum því í áttundu umferð sem fór fram í dag gerði hann jafntefli við Rússann, Egor Sedykh, en hann er rúmlega 200 skákstigum hærri en Vignir.  Þegar þrjár umferðir eru eftir er Vignir í 31.-52. sæti með 5 vinninga.  Athygli vekur að Víetnaminn sem er efstur er með fullt hús vinninga.

Það er með hreinustu ólíkindum að í níundu umferð mætir Vignir sjötta Rússanum í röð en af 150 keppendum í flokki Vignis eru 15 Rússar sem þýðir að hann hefur mætt 40% þeirra í sex skákum í röð.  Afar sérkennilegt, en að andstæðingi Vignis Vatnars á morgun.

Sá heitir Nikita Samsonov og er með 1849 skákstig, um 250 stigum meira en okkar maður.  Hann hefur teflt vel niður fyrir sig allt mótið og tapaði m.a. gegn tveimur stigalausum keppendum ásamt því að gera jafntefli við þann þriðja.  Vignir mun stýra hvítu mönnunum en tölfræði Rússans er afar sérstök.  Hann er með tiltölulegar fáar skákir skráðar á sig, um 80, en vinningshlutfallið hans með svart er rúmlega 60% en með hvítt aðeins um 30%.

Við óskum Vigni góðs gengis á morgun og vonum að hann dragi úr vinningshlutfalli Rússans með svörtu mennina.  Umferðin hefst kl. 14 að íslenskum tíma.  Nú hafa skákir Vignis úr 6. og 7. umferð bæst í hópinn.

  • Heimasíða mótsins
  • Úrslit, staða og pörun
  • Beinar útsendingar
  • Skák Vignis úr 1. umf
  • Skákir Vignis úr 2. og 3. umf
  • Skákir Vignis úr 4. og 5. umf
  • Skákir Vignis úr 6. og 7. umf