Friðrik Ólafsson heimsótti börnin í T.R.



Formaður T.R., Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, hefur ritað pistil um skemmtilega heimsókn okkar fyrsta stórmeistara í T.R. síðastliðinn laugardag.  Pistilinn má lesa í heild sinni hér að neðan.

Friðrik Ólafsson á Laugardagsæfingu TR

 

Skákdagur Íslands sem haldinn er um allt land í tilefni af afmælisdegi Friðriks Ólafssonar stórmeistara, var sérstaklega skemmtilegur og hátíðlegur í Taflfélagi Reykjavíkur sl. laugardag. 

 

Afmælisbarnið, TR-ingurinn, stórmeistarinn og fyrrverandi forseti FIDE, Friðrik Ólafsson kom á Laugardagsæfingu í TR og tefldi, spjallaði, jós úr skákviskubrunni sínum, gaf eiginhandaráritanir og drakk afmæliskaffi í félagsheimili TR, Faxafeni 12.

 

Það var lengi búið að standa til að fá Friðrik Ólafsson á skákæfingu barna í TR og afmælisdagur hans 26. janúar, sem jafnframt er núna þekktur sem Skákdagur Íslands, reyndist kærkomið tilefni til að bjóða honum og konu hans Auði Júlíusdóttur í heimsókn.

 

Samkvæmt áætlun þá byrjaði Laugardagsæfingin kl. 14 á því að Torfi Leósson kynnti dagskrá dagsins og fór yfir eina af skákum Friðriks úr bókinni Við skákborðið í aldarfjórðung. Síðustu tvær skákæfingar höfðu einnig verið helgaðar skákum Friðriks úr einmitt þessari bók. Þannig að krakkarnir voru vel undirbúin fyrir heimsóknina og gerðu sér grein fyrir að mikill meistari var að koma í heimsókn.

 

Eftir skákskýringuna var frjáls taflmennska og síðan “lögbundin” hressing, eins og alltaf á Laugardagsæfingunum.

 

Þegar klukkan nálgaðist 15 var farið að fylgjast með umferð við TR, því við áttum von á Friðriki og Auði um þrjúleytið. Það stóð eins og stafur á bók að þau hjónin voru mætt á slaginu þrjú.

 

Þegar Friðrik og Auður gengu inn í TR salinn stóðu allir krakkarnir upp og klöppuðu þeim lof í lófa. Sigurlaug Regína formaður TR bauð þau velkomin og færði Auði blómvönd og afmælisbarninu gjafaöskju með ilmandi kaffi, te og súkkulaði. Þetta hitti í mark og þökkuðu þau hjónin innilega fyrir.

 

Því næst byrjaði “afmælispartíið”. Krakkarnir skoruðu Friðrik á hólm í skák á skákskýringarborðinu. Þau höfðu jú tekið eina létta æfingu á móti fyrrverandi heimsmeistara Anatoly Karpov fyrir rúmlega ári síðan og vildu gjarnan endurtaka leikinn á móti Friðrik, sem tók áskorunni. Einn fimm ára þátttakandi valdi höndina hjá Torfa með hvíta peðinu, þannig að krakkarnir fengu hvítt og Friðrik svart. Þetta “hóptefli” gekk síðan greiðlega fyrir sig. Krakkarnir réttu upp hönd til að koma með tillögu að leik og Torfi valdi út eina “höndina” og fékk sá hinn sami að ráða næsta leik hvíts. Fyrst var þetta teoría, en síðan voru farnar ótroðnar slóðir, þar sem styrkleikamunurinn byrjaði að segja til sín! En Friðrik var ekkert að tvínóna við hlutina og bauð krökkunum jafntefli eftir dágóða stund, sem og krakkarnir þáðu – eftir örlitla umhugsun!

 

Næst á dagskrá var spjallstund. Krakkarnir gátu spurt Friðrik um allt milli himins og jarðar varðandi skák og skákferil hans. Var þetta mjög skemmtileg stund, þar sem alltaf voru margar hendur á lofti til að fá að bera fram spurningu. Friðrik gaf sér góðan tíma og svaraði á persónulegan og hnyttinn hátt, þar sem reynsla hans sem skákmanns allt frá barns aldri kom vel fram. Lýsingar hans á skákumhverfinu þegar hann var að alast upp og hans fyrsta ferð á skákmót til útlanda vöktu mikla athygli hjá krökkunum og ekki síður hjá þeim fullorðnu sem nærstaddir voru.

 

Eftir gott og fræðandi spjall við stórmeistarann fengu krakkarnir innsýn inn í töfra skáklistarinnar þegar Friðrik sýndi þeim skákþraut eða tafllok, sem í raun var eins og listaverk frá upphafi til enda! Þetta skákdæmi vakti mikla lukku og undrun hjá öllum viðstöddum. Í sambandi við þetta skákdæmi jós Friðrik úr viskubrunni sínum varðandi það sem kalla má árangursríka skákþjálfun.

 

Í lokin gaf síðan Friðrik eiginhandaráritanir á mynd sem krakkarnir fengu á æfingunni. Þetta var samsett mynd af Friðriki að tafli frá því í haust og tvær litlar myndir voru felldar inn í spjaldið, þar sem Friðrik teflir annars vegar við Bobby Fischer og hins vegar við Anatoly Karpov. Myndin er síðan merkt þessari heimsókn með orðunum: Skákdagur Íslands 2013. Heimsókn Friðriks Ólafssonar á skákæfingu barna í TR á afmælisdaginn 26. janúar.

Það var Björn Jónsson, stjórnarmaður í TR, sem útbjó þessa áritunarmynd svo snilldarlega. Friðrik gaf sér góðan tíma í að gefa eiginhandaráritanirnar og að því búnu fóru krakkarnir heim á leið. Skákæfingin var síðan búin nákvæmlega kl. 16 eins og venja er.

 

Stjórn TR bauð síðan þeim hjónum Friðriki og Auði upp á afmæliskaffi í TR salnum með kökum og meðlæti sem Birna Halldórsdóttir hafði útbúið af sinni alkunnu snilld. Áttum við þarna skemmtilegt spjall yfir kaffi og kökum. Góður endir á heimsókn Friðriks og Auðar í TR.

 

Við í stjórn Taflfélags Reykjavíkur þökkum Friðriki og Auði innilega fyrir heimsóknina á Laugardagsæfingu í TR. Hún mun lengi verða í minnum höfð, ekki síst fyrir þá skemmtilegu og léttu stemningu og þá nærveru sem myndaðist milli hins mikla meistara Friðriks Ólafssonar og skákkrakkanna í TR.

  • Fleiri myndir frá heimsókn Friðriks