Víða mátti sjá snaggaraleg tilþrif í fimmtu umferð Skákþings Reykjavíkur sem fram fór í gær. Bragðarefurinn Kristján Örn Elíasson fórnaði manni gegn Ingvari Agli Vignissyni fyrir „eitthvað af peðum“ eins og hann orðaði það sjálfur. Í kjölfarið virtist Ingvar ná vænlegri stöðu en ákvað á ögurstundu að gefa manninn til baka og niðurstaðan varð jafntefli.
Á næsta borði sigldi Jon Olav Fivelstad endatafli með virkari mönnum og meira rými í höfn og hafði góðan sigur gegn Óskari Long Einarssyni.
Fjörið virtist síðan vera að hefjast á fyrsta borði í viðureign Dags Ragnarssonar og Lenku Ptacnikovu (einu keppendanna sem voru með fullt hús fyrir umferðina); staðan þrungin spennu og tímahrak að nálgast. Dagur var með öflug en dálítið viðkvæm peð á miðborði og efnilegan hvítreita biskup á bak við þau sem beið bara eftir að láta til sín taka við nokkuð viðkvæma kóngsstöðu hvíts en þar loftaði vel um. Biskupinn fékk þó engin verkefni þar, því Lenka ákvað að loftrýmisgæsla væri hyggileg og þrálék rétt eftir tímamörkin. Þetta reyndist eina jafnteflið á efstu átta borðunum þar sem hörð barátta var í fyrirrúmi. Guðmundur Kjartansson gaf til dæmis skiptamun og svo mann til viðbótar, til að eignast tvö samstæð frípeð gegn nafna sínum Gíslasyni og hafði sigur, Daði sigraði í viðureign sinni við Bárð Örn Birkisson þar sem báðir misstu af færum í vandtefldri stöðu og loks lét Gauti Páll Jónsson 150 stiga mun ekkert trufla sig og lagði Þorvarð Fannar á 6. borði.
Allt þetta þýðir að bilið á milli þeirra efstu minnkaði heldur; nú eru sjö skákmenn með fjóra eða fjóran og hálfan vinning þegar mótið er rúmlega hálfnað.
Næsta umferð, sú sjötta, er á miðvikudaginn og þá mætast m.a. Dagur og Gauti Páll, Björn Þorfinnsson og Lenka, Björgvin Víglundsson og Guðmundur Kjartansson og Daði og Örn Leó Jóhannsson.
Aðstaða er góð í Skákhöllinni eins og fyrri daginn. Birnukaffi var opið en þetta kvöld stóð dóttirin Sylvía vaktina.