Ziska teflir vel í Riga



Nú stendur yfir í Riga í Lettlandi opið alþjóðlegt mót, þar sem taka þátt meðal annara bræðurnir Björn og Bragi Þorfinnssynir.  Bragi hefur 3 vinninga eftir fjórar umferðir, meðan Björn hefur náð í hús 2.5   En á mótinu teflir líka T.R-ingurinn og alþjóðlegi meistarinn Helgi Dam Ziska (2468) frá Færeyjum.  Hann hefur byrjað af miklum krafti og hlotið 3.5 vinning úr fyrstu fjórum skákunum.  Í þriðju umferð var hann óheppinn að tapa niður í tímahraki gjörunnu tafli gegn stórmeistaranum Igor Kovalenko (2646).  Skákinni lauk með jafntefli en í fjórðu umferð gerði hann engin mistök og rúllaði upp stórmeistaranum og íslandsvininum Jaan Ehlvest (2615).  Þessi mikli öðlingur virðist því í fantaformi og til alls líklegur á mótinu.

Helgi Dam Ziska mun tefla á Stórmeistaramóti Taflfélags Reykjavíkur í haust og því ljóst að íslensku keppendurnir munu fá verðuga andstæðinga, því auk Ziska taka þátt ofurstórmeistarinn Fedorchuk (2669), stórmeistarinn Oleksienko (2598) og alþjóðlegi meistarinn Glud (2520). Mótið verður það sterkasta sem haldið hefur verið hér um árabil og meðalstig keppenda yfir 2475 Elo.  Íslenskir skákáhugamenn geta því farið að láta sig hlakka til, enda ekki ónýtt að geta fylgst með jafnskemmtilegu móti í aðdraganda Íslandsmóts skákfélaga.