Vignar Vatnar og Veronika Steinunn meistarar TR



Barna- og unglingameistaramót sem og Stúlknameistaramót Taflfélags Reykjavíkur fór fram sunnudaginn 27. október, í félagsheimili T.R. Faxafeni 12. Keppt var í einum flokki og voru 7 umferðir tefldar eftir Monradkerfi, en umhugsunartíminn var 15 mínútur á skák.

 

Skákmótið var opið fyrir keppendur 15 ára og yngri og tóku 19 krakkar þátt. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, en auk þess fyrir þrjár efstu stúlkurnar. Félagsmenn í TR kepptu einnig um titilinn Unglingameistari T.R. 2013 og Stúlknameistari T.R 2013. Að auki voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í flokki 12 ára og yngri.

Skákmótið var mjög vel mannað, en af 19 þátttakendum komu 12 úr Afrekshóp TR. Þátttakendur komu einnig af Laugardagsæfingahópnum og úr Stelpuskákhóp TR, auk tveggja þátttakenda úr öðrum félögum.

Skákmótið fór mjög vel fram og var góð stemming meðal krakkanna. Eftir fjórðu umferð bauð T.R. keppendum upp á djús og kökuhlaðborð sem hitti í mark! Þá var spjallað um heima og geima fram að næstu umferð!

Sigurvegari mótsins og jafnframt Unglingameistari T.R. 2013 varð hinn 10 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson, sem vann allar sínar skákir. Hann varði þar með titilinn frá því í fyrra. Árangur Vignis þarf ekki að koma á óvart. Hann er í stöðugri framför og er ekki síst kraftmikill og öruggur í styttri skákum. Hann er auk þess núverandi Unglingameistari Reykjavíkur, Íslandsmeistari barna og Norðurlandameistari í sínum aldursflokki.

Efst í flokki stúlkna varð Sóley Lind Pálsdóttir úr Taflfélagi Garðabæjar, en hún hlaut einnig bronsverðlaunin í heildarmótinu. Sóley Lind tefldi af miklum krafti í mótinu og var á efstu borðum allt mótið. Í 2. sæti í Stúlknameistaramótinu varð Veronika Steinunn Magnúsdóttir, sem jafnframt varð efst TR-stúlkna og þar með Stúlknameistari T.R. 2013. Veronika Steinunn hefur verið virk í skákinni undanfarin ár og hefur sýnt mikinn metnað í að bæta árangur sinn. Hún er núverandi Íslandsmeistari stúlkna í skólaskák í eldri flokki (8.-10.bekk).

Margir snilldartaktar sáust á skákborðinu þennan dag og margir áttu sínar stjörnustundir á meðan mótinu stóð. Margar skákir voru “unnar” á borðinu – en tíminn gerði út um skákina. Þetta þekkja flestir skákmenn! Þá er gott að hugsa um að það kemur skákmót eftir þetta mót!

Frammistaða yngsta keppandans, Freyju Birkisdóttur, 7 ára systur tvíburanna Björns Hólms og Bárðar Arnar var heillandi! Freyja tefldi við Vigni Vatnar í 1. umferðinni og sýndi aðdáunarmikla einbeitingu í skákinni og nýtti tímann vel. Hún tefldi þarna sennilega eina af sínum bestu skákum hingað til! Freyja hefur verið dugleg að sækja bæði Stelpuskákæfingar og Laugardagsæfingar TR sl. ár.

Hinn 8 ára gamli Róbert Luu átti mjög gott mót, en hann lenti í 6. sæti í mótinu og fékk bronsverðlaun í flokki 12 ára og yngri á eftir Vigni og Mykhaylo. Hinn 10 ára gamli Mykhaylo Kravchuk átti einnig mjög gott mót, en hann varð í 2.-4. sæti í mótinu, en lægri á stigum en Gauti Páll og Sóley Lind og hlaut 2. sætið á eftir Vigni í flokki 12 ára og yngri.

Allir þáttakendurnir stóðu sig með sóma. Flestir þátttakendurnir höfðu einnig tekið þátt í skákmótinu Æskan og Ellin sem fram fór í TR daginn áður. Þannig að dagskráin var stíf fyrir þennan hóp! Á því móti tóku 24 TR-krakkar þátt auk skákkrakka úr öðrum félögum, þannig að í framtíðinni þarf að huga að því að hafa bil á milli þessara móta, svo fleiri hafi tækifæri á að taka þátt í báðum skákmótunum!

Úrslit skákmótsins urðu annars sem hér segir:

Efst í opnum flokki:

 

1. Vignir Vatnar Stefánsson, 7 vinn.

2. Gauti Páll Jónsson 5 vinn.

3. Sóley Lind Pálsdóttir 5 vinn.

 

Efst í stúlknaflokki:

 

1. Sóley Lind Pálsdóttir 5 vinn.

2. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 4 vinn.

3. Sólrún Elín Freygarðsdóttir 3 vinn.

 

Efstir í flokki 12 ára og yngri:

 

1. Vignir Vatnar Stefánsson 7 vinn.

2. Mykhaylo Kravchuk 5 vinn.

3. Róbert Luu 4,5 vinn.

 

Heildarúrslit:

  1. Vignir Vatnar Stefánsson T.R., 7 v. af 7. Unglingameistari T.R. 2013. Einnig 1. verðlaun 12 ára og yngri.
  2. Gauti Páll Jónsson, TR 5 v.
  3. Sóley Lind Pálsdóttir, T.G., 5 v.
  4. Mykhaylo Kravchuk, T.R. 5 v.
  5. Björn Hólm Birkisson, TR, 4,5v.
  6. Róbert Luu, T.R. 4,5 v.
  7. Jakob Alexander Petersen, T.R.  4 v.
  8. Dawid Kolka, GMHelli, 4 v.
  9. Veronika Steinunn Magnúsdóttir, T.R., 4 v. Stúlknameistari T.R. 2013.
  10. Ólafur Örn Olafsson, T.R., 3,5 v.
  11. Bárður Örn Birkisson, T.R., 3 v.
  12. Guðmundur Agnar Bragason, T.R., 3 v.
  13. Davíð Dimitry Indriðason, T.R., 3 v.
  14. Sólrún Elín Freygarðsdóttir, T.R., 3 v.
  15. Freyja Birkisdóttir, T.R., 2,5 v.
  16. Sagitha Rosanty, T.R., 2,5 v.
  17. Mateusz Jakubek, T.R., 2 v.
  18. Björn Ingi Helgason, T.R., 1,5 v.
  19. Stefán Gunnar Maack, T.R., 1 v.

 

Skákstjórar voru Kjartan Maack og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir sem einnig tóku myndir.

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir