TR-ingar Íslandsmeistarar unglingasveita 2020!



tr-4

Íslandsmót unglingasveita 2020 fór fram í dag í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur og Skákskóla Íslands í Faxafeni 12. Mótið átti upphaflega að fara fram í byrjun desember, en vegna sóttvarnarreglugerða, sem við öll erum vön að taka tillit til, var ekki hægt að halda mótið á tilsettum tíma. Nú á nýju ári rýmkuðust sóttvarnarreglurnar og þá opnaðist gluggi til að halda mótið með breyttu fyrirkomulagi þó. En aðalmálið var, að hægt var að halda mótið í raunheimum og ég held að allir hafi fagnað því!

Það var allavega bjart yfir skákkrökkunum sem lögðu leið sína í Faxafenið í morgun. Liðsstjórar og skákstjórar voru allir með grímur og engir áhorfendur á svæðinu, samkvæmt nýjustu reglum. Sprittbrúsar á hverju borði og allir voru meðvitaðir um aðstæður, en það var engu að síður ánægja yfir því að tefla á skákborði á ný!

Alls tóku 26 lið þátt í öllu mótinu og var þeim skipt í A og B deildir. Taflfélag Reykjavíkur sendi 5 lið til leiks og tefldu þrjú lið í A deildinni og tvö lið í B deildinni.

tr-22

Í morgun kl. 11 hófst B deildin með 10 liðum, sem tefldu öll innbyrðis. Taflfélag Reykjavíkur átti hér tvö lið D og E-lið. D-liðið gerði sér lítið fyrir og vann þessa deild með 32,5 vinning af 36 mögulegum. Þeir sem tefldu hér voru þeir Emil Kári Jónsson, Lemuel Goitom Haile og bræðurnir Kjartan Halldór Jónsson og Felix Eyþór Jónsson.

tr-6

 

E-lið Taflfélags Reykjavíkur var skipað þeim Bergþóru Helgu Gunnarsdóttur, Hildi Birnu Hermannsdóttur og Elínu Láru Jónsdóttur. Því miður forfallaðist 4. borðs keppandinn á síðustu stundu og tefldu þær þrjár stöllur því allar umferðirnar. Þær fengu 13 vinninga og lentu í 8. sæti í B deildinni.

Klukkan 14 hófst svo keppni 16 liða í A deildinni. Vegna fjöldatakmarkana með tilliti til sóttvarna, var þeim skipt í tvennt, A riðil, sem tefldi í TR salnum og B riðil sem tefldi í sal Skákskóla Íslands.

tr-8

 

Í A riðli var B-lið TR í mikilli og jafnri baráttu við A-lið Breiðabliks. Svo fór að A-lið Breiðabliks vann riðilinn með 25,5 vinningi og B-lið TR kom í humáttina tveimur vinningum neðar, með 23,5 vinning og hreppti bronsverðlaun í A deildinni ásamt B-liði Breiðabliks, sem varð í 2. sæti í B riðlinum. Í B-liði TR tefldu þau Adam Omarsson, Árni Ólafsson, Iðunn Helgadóttir og Arnar Valsson.

tr-3

 

Í B riðlinum sigraði hins vegar A-lið Taflfélags Reykjavíkur með 26 vinninga af 28 mögulegum!

C-lið TR tefldi einnig í B riðlinum og lenti í 5. sæti með 11,5 vinning. Í þessu liði tefldu Bjartur Þórisson, Jósef Omarsson, Jón Louie Thoroddsen, Katrín María Jónsdóttir og Soffía Arndís Berndsen.

En þetta var ekki búið enn! Eftir var úrslitakeppni milli liðanna sem sigruðu sitt hvorn riðilinn: A-lið Breiðabliks og A-lið TR.

Klukkan 17 hófs úrslitakeppnin í sal TR.

Í fyrstu umferðinni skildu liðin jöfn með 2:2. Enn var mikil spenna í loftinu.

Seinni umferðina unnu TR-ingar 3:1 og urðu þar með Íslandsmeistarar unglingasveita 2020!

tr-10

Þau sem tefldu í A-liði TR voru Batel Goitom Haile, Benedikt Þórisson, Ingvar Wu Skarphéðinsson og Kristján Dagur Jónsson.

Þetta var langur laugardagur, en ótrúlega skemmtilegur og auðvitað mjög gaman að TR-ingarnir gátu varið titilinn frá því í fyrra!

Öll liðin í TR tefldu í nýjum keppnispeysum og setti það skemmtilegan svip á liðin.

Krakkarnir úr TR stóðu sig frábærlega vel, sýndu mikla einbeitingu og seiglu ásamt góðri skákhegðun við skákborðið og utan þess. Við liðsstjórar, þjálfarar og stjórnarmenn í TR erum ótrúlega stolt af þessum flottu krökkum!

Við í TR höfum haft það fyrir hefð að heiðra þá krakka, sem eru í 10. bekk í grunnskólanum og tefla fyrir hönd TR í þessu móti í síðasta sinn. Að þessu sinni voru þrír drengir heiðraðir og fengu þeir veglegan konfektkassa frá Taflfélagi Reykjavíkur, með þökkum fyrir alla taflmennskuna undanfarin ár og “vel unnin störf”! Þetta voru þeir Arnar Valsson, Árni Ólafsson og Kristján Dagur Jónsson.

tr-9

 

Önnur hefð sem við höfum haft, er að taka hópmynd af öllum liðinum í lok móts. Það var ekki gerlegt að þessu sinni, með ólíkum tímasetningum og riðlum. En engu að síður voru teknar myndir sem fylgja þessum pistli.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum skákkrökkunum, sem tefldu fyrir hönd félagsins á Íslandsmóti unglingasveita í dag. Einnig þökkum við foreldrum fyrir öll samskiptin í undirbúningi að þátttöku að mótinu.

Liðsstjórar í dag voru þau Gauti Páll Jónsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Við höfðum mikið gaman að þessu og þökkum fyrir að fá að hafa fengið að vera liðsstjórar!

Loks viljum við koma þökkum á framfæri til mótshaldara og skákstjóra mótsins, sem unnu að fagmennsku og sáu til þess að allt færi samkvæmt sóttvarnarreglum og skákreglum.

Allir krakkar frá félögunum sem tóku þátt í dag fá þakkir fyrir skemmtilega keppni.

Myndir tóku Gauti Páll Jónsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.