Þrír efstir á Öðlingamótinu eftir fjórar umferðir



Eftir þrjár umferðir voru tveir skákforkar efstir og jafnir með þrjá vinninga af þremur mögulegum á Öðlingamóti TR. Það voru þeir Þorvarður Ólafsson og Jóhann Ingvason sem báðir unnu með svart. Áhugavert var að í þriðju umferð mættust bara einstaklingar með jafnmarga vinninga.

Síðastliðið miðvikudagskvöld mættust í 4.umferð þeir Þorvarður og Jóhann og endaði sú skák með jafntefli. Á öðru borði lagði Haraldur Haraldsson Jóhann Ragnarsson og kom sér með þeim úrslitum á toppinn ásamt þeim Þorvarði og Jóhanni Ingvasyni, með 3 ½ vinning. Í fjórða sæti eftir umferðinar fjórar er Haraldur Baldursson. Ein óvænt úrslit litu dagsins ljós er Hörður Jónasson (1503) vann Óskar Maggason (1811) í spænska leiknum, eins og honum einum er lagið. Annars voru úrslitin eftir hinni frægu bók, en í heildina voru fjögur jafntefli samin.

Í fimmtu umferð munu línur svo sannarlega fara að skýrast. Haraldur Haraldsson reynir að knýja fram sigur með hvítu mönnunum gegn Þorvarði Ólafssyni og Jóhann Ingvason mætir Haraldi Baldurssyni. Svo má ekki gleyma að hvorki fleiri né færri en sex skákgarpar eru með 2 ½ vinning og mætast þeir á borðum 3-5. Þessir kappar geta auðvitað skipt sér af toppbaráttunni.

Upplýsingar um einstök úrslit og stöðu mótsins má finna á Chess-Results. Þar má einnig finna skákir mótsins.