Þorvarður sigurvegari jólafimmtudagsmóts



Hinn knái Haukamaður, Þorvarður Fannar Ólafsson, kom sá og sigraði á síðasta fimmtudagsmóti ársins.  Það var jólablær yfir mótinu sem þó kom ekki í veg fyrir harða baráttu á skákborðunum og sem fyrr enduðu margar skákanna á dramatískan og jafnvel furðulegan hátt.  Sem dæmi má nefna að í einu tímahrakanna breyttist svartreiti biskup svarts skyndilega í hvítreitan!

Þorvarður hélt forystunni frá upphafi og var með fullt hús fram að sjöttu umferð þegar hinn öflugi TR-ingur, Torfi Leósson, náði að stöðva flug hans en skák þeirra endaði með skiptum hlut.  Það kom þó ekki að sök því Þorvarður vann rest og endaði því með 8,5 vinning af 9.  Í öðru sæti, aðeins hálfum vinningi á eftir, varð hin unga og mjög svo efnilega, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, en hún tapaði aðeins gegn sigurvegaranum sjálfum.

Jafnir í 3-4. sæti með 6 vinninga urðu síðan hinir ungu og frísku TR kappar, Daði Ómarsson og formaðurinn sjálfur, Óttar Felix Hauksson, en svo virtist sem æði væri runnið á þann síðarnefnda þar sem hann vann hverja skákina á fætur annarri og náði líklega sínum besta árangri á skákmóti fyrr og síðar.

Úrslit á þessu vel sótta jólafimmtudagsmóti urðu:

  • 1. Þorvarður Ólafsson 8,5 v af 9
  • 2. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir 8 v
  • 3-4. Daði Ómarsson, Óttar Felix Hauksson 6 v
  • 5. Atli Freyr Kristjánsson 5,5 v
  • 6-12. Torfi Leósson, Gylfi Þórhallsson, Júlíus L. Friðjónsson, Kristján Örn Elíasson, Vilhjálmur Pálmason, Helgi Brynjarsson, Tinna Kristín Finnbogadóttir 5 v
  • 13-14. Jóhann H. Ragnarsson, Ulker Gasanova 4,5 v
  • 15-18. Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, Elsa María Kristínardóttir, Birkir Karl Sigurðsson, Matthías Pétursson 4 v
  • 19-21. Jón Gunnar Jónsson, Þórir Benediktsson, Brynjar Níelsson 3,5 v
  • 22. Örn Stefánsson 3 v
  • 23. Pétur Axel Pétursson 1,5 v
  • 24. Jóhannes Geir Guðmundsson 0 v

Stjórn T.R. þakkar öllum þeim sem tóku þátt í mótunum á árinu og vonast til að sjá sem flesta á mótum komandi árs sem hefjast á ný þann 8. janúar.