Stórskotaliðið stóð fyrir sínu í annarri umferð Skákþingsins



Jólin voru sprengd í loft upp á sama tíma og önnur umferð Skákþings Reykjavíkur fór vel fram í Faxafeninu að kveldi þrettándans. Flugeldasýningar voru um víðan völl, hvort heldur sem var utandyra eða innandyra á hinum töfrum gæddu 64-reita ferningsborðum.

IMG_7791

Í fjarska má sjá gömlu meistarana vaka yfir keppendum Skákþingsins.

Líkt og í fyrstu umferð var langstærstur hluti úrslitanna eftir bókinni góðu, sem enginn veit hvenær var skrifuð eða af hverjum, hvað þá heldur hvar hún er niðurkomin. Hinsvegar voru það ungu piltarnir Halldór Atli Krisjánsson (1411) og Hjörtur Kristjánsson (1352) -samt ekki bræður- sem héldu uppi merkjum hins óvænta. Halldór Atli sigraði Jón Úlfljótsson (1794) og Hjörtur gerði slíkt hið sama gegn Óskari Haraldssyni (1784). Báðir eru piltarnir stórefnilegir og sýna það hér með góðum sigrum á mun stigaærri andstæðingum.

Á efsta borði sigraði stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471) Siguringa Sigurjónsson (1985) og þá höfðu alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson (2456) og Jón Viktor Gunnarsson (2455) betur gegn Haraldi Baldurssyni (1974) og Lofti Baldvinssyni (1979).

IMG_7795

Björn Þorfinnsson á ærið verk fyrir höndum gegn hinum brögðótta Vigni Vatnari.

Í þriðju umferð heldur stigamunur keppenda í milli áfram að minnka en þá mætir Stefán Þorvarði F. Ólafssyni (2206), Guðmundur fæst við Mikael Jóhann Karlsson (2161) og Jón Viktor mætir hinum eitilharða Oliver Aroni Jóhannessyni (2198). Svo skemmtilega vill til að Stefán og Þorvarður sem og Jón Viktor og Oliver mættust einnig innbyrðis í þriðju umferð Skákþings síðasta árs þar sem Þorvarður og Oliver unnu báðir nokkuð óvænt. Nú er spurningin, endurtekur sagan sig?

IMG_7796

Það eru líklega ekki margir sem koma sér á skákstað í flugvél. Bolvíkingurinn Guðmundur Gíslason er þó einn af þeim.

Þá er alls ekki úr vegi að nefna mjög athyglisverða viðureign sem mun fara fram á fjórða borði hvar hinn dúnmjúki alþjóðlegi meistari Björn Þorfinnsson (2418) stýrir hvítu mönnunum gegn engum öðrum en drengnum með ljósu lokkana, Vigni Vatnari Stefánssyni (2071). Sú viðureign verður eitthvað!

Það verður blásið til leiks á sunnudag á slaginu 14:00 og eru áhugasamir hvattir til að mæta og fylgjast með herlegheitunum. Það er alltaf heitt á könnunni hjá Birnu og nóg af gómsæti til að maula.