Stórmeistaramót T.R.: Úkraínskur stormsveipur



Yfirburðir úkraínsku ofurstórmeistaranna í Stórmeistaramóti Taflfélags Reykjavíkur eru algjörir.  Þegar tvær umferðir lifa af móti eru Sergey Fedorchuk (2656) og Mikhailo Oleksienko (2608) jafnir í efsta sæti með 6,5 vinning, 2,5 hálfum vinningi meira en næstu keppendur sem eru danski alþjóðlegi meistarinn Simon Bekker-Jensen (2420) og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2434).

 

Það er magnað að fylgjast með svo sterkum skákmönnum tefla og þeir hafa margoft sýnt í mótinu hversvegna þeir hafa á milli 2600 og 2700 Elo stig.  Heilt yfir hafa þeir verið í litlum vandræðum þó að stöku sinnum hafi Íslendingarnir náð að sitja í þeim en hafa svo misst stöðurnar niður, oftar en ekki í endatöflum.  Til fróðleiks má geta þess að Oleksienko hafði það á orði að íslensku skákmennirnir þyrftu að stúdera endatöfl.  Gaman að þessu og vissulega aðeins vel meint hjá þeim úkraínska.

 

Áttunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 15.  Þá mætast m.a. Fedorchuk og Oleksienko og einhverjir myndu sjálfsagt ganga svo langt að spá stuttu jafntefli.  Á vef mótsins eru ítarlegri pistlar með uppgjöri hverrar umferðar fyrir sig þar sem Ingvar Þór Jóhannesson fer hamförum í skemmtilegum og fróðlegum skrifum sínum.

  • Chess-Results
  • Vefur mótsins
  • Myndir (ÁK)