Skákþing Reykjavíkur 2018 – UppgjörSkákþing Reykjavíkur var fyrst haldið árið 1932. Þá fór með sigur úr býtum hinn sexfaldi Íslandsmeistari Ásmundur Ásgeirsson. Síðan þá hafa margir af fremstu skákmönnum þjóðarinnar hampað Reykjavíkurmeistaratitlinum, enginn þó oftar en stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson; alls sjö sinnum. Á meðal annarra sigurvegara eru stórmeistararnir Friðrik Ólafsson (1960, 1963, 1975), Margeir Pétursson (1980), Helgi Ólafsson (1976, 1977), Hjörvar Steinn Grétarsson (2009, 2010), Stefán Kristjánsson (2002, 2006) og Jón L. Árnason (1981).

Keppendur Skákþingsins að þessu sinni voru alls 57 og þar á meðal voru tveir fyrrum Reykjavíkurmeistarar; Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2426), sem vann mótið árið 2004, og FIDE-meistarinn Sigurbjörn J. Björnsson (2288), sem varð hlutskarpastur árið 2007. Aðrir titilhafar mótsins voru alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson (2336), FIDE-meistarinn Dagur Ragnarsson (2332), FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2304) og stórmeistari kvenna Lenka Ptácníková (2218).

Skákþing Reykjavíkur árið 2018 bauð upp á mörg óvænt úrslit og afar spennandi toppbaráttu sem verður lengi í minnum höfð.

 

SKÁKMEISTARI REYKJAVÍKUR

Að loknum sex umferðum hafði Akureyringurinn knái, Stefán Steingrímur Bergsson (2093), fullt hús vinninga og sat einn á toppnum. Í 7.umferð mætti hann FM Sigurbirni Björnssyni og reiknuðu margir með að þar kæmi fyrsti ósigur Stefáns, einkum vegna þess að á þessum tímapunkti var keppninautum Stefáns það full ljóst að ekkert nema full einbeiting og vönduð taflmennska gæti stöðvað kappann. Framúrskarandi tækni Stefáns í hróksendatafli varð þó til þess að hann lagði Sigurbjörn að velli. Stefán stóð því með pálmann í höndunum fyrir síðustu tvær umferðirnar. Í 8.umferð tapaði Stefán fyrir IM Braga Þorfinnssyni og því voru Bragi og Dagur Ragnarsson í seilingarfjarlægð fyrir lokaumferðina. Stefán mætti Degi í síðustu umferðinni og nægði Akureyringnum jafntefli til að tryggja sér sigur í mótinu. Stefán stóðst pressuna með glæsibrag. Hann tefldi mjög vel gegn franskri vörn Dags, hann nýtti sér mistök sem Dagur gerði í miðtaflinu og vann að lokum skákina. Þessi sigur tryggði Stefáni 8 vinninga í skákunum 9 og sat hann því einn á toppnum við leiðarlok, heilum vinningi á undan næsta manni. Sannarlega stórbrotin frammistaða hjá Stefáni sem var í upphafi móts aðeins 14.stigahæsti keppandinn.

IMG_9712

Stefán Bergsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2018.

 

VERÐLAUNAHAFAR

IM Bragi Þorfinnsson (2426) tryggði sér silfurverðlaun á mótinu en hann lauk tafli með 7 vinninga í skákunum 9. Raunar tefldi Bragi einungis 7 skákir því í tvígang tók hann hjásetu sem gaf honum hálfan vinning. Það munar um minna í toppbaráttunni. Hörð barátta var um 3.sætið á milli tveggja skákmanna sem báðir unnu góða sigra í lokaumferðinni og luku keppni með 6,5 vinning; IM Einar Hjalti Jensson (2336) og FM Sigurbjörn Björnsson (2288). Skera þurfti úr um sigurvegara með stigaútreikningi og þar varð Einar Hjalti hlutskarpari. Svo einkennilega vildi til að þeir félagarnir mættust ekki í mótinu.

Fremstur í flokki skákmanna með minna en 2000 skákstig varð Alexander Oliver Mai (1970). Alexander fékk 5 vinninga ásamt sjö öðrum en reyndist hæstur eftir stigaútreikning. Einn þessara sjömenninga var Jón Úlfljótsson (1687) sem varð fremstur skákmanna með minna en 1800 skákstig. Með 4,5 vinning voru félagarnir efnilegu Benedikt Briem (1464) og Örn Alexandersson (1366) og voru þeir hæstir í sínum stigaflokkum; Benedikt í undir 1600 og Örn undir 1400. Adam Omarsson (1068) varð efstur skákmanna með minna en 1200 skákstig með 4 vinninga. Björgvin Jónas Hauksson varð fremstur stigalausra með 4 vinninga sem fleytti honum inn á stigalista með 1709 skákstig. Þá átti Stefán Orri Davíðsson (1280) bestu frammistöðu miðað við eigin stig. Frammistaða hans samsvaraði 1693 skákstigum og munurinn því 413 stig (1693-1280).

 

ÓVÆNTASTI SIGURINN

Áður en skák Benedikts Þórissonar (1143) og Óskars Long Einarssonar (1785) hófst áttu flestir von á sigri Óskars enda munar heilum 642 skákstigum á þeim tveimur. Benedikt hefur hins vegar verið afar duglegur að sækja æfingar og tefla í mótum að undanförnu líkt og sést á hraðferð piltsins upp stigalistann. Benedikt er sýnd veiði en ekki gefin, líkt og á við um margt ungt skákfólk, og gerði pilturinn sér lítið fyrir og vann skákina. Kannski er það rangnefni að tala um óvæntasta sigurinn því unga fólkið er gjarnan mun sterkari á taflsvellinu en stigin þeirra segja til um. Hvað sem því líður þá var sigurinn glæsilegur hjá Benedikt.

IMG_9703

Benedikt Þórisson að störfum á Skákþingi Reykjavíkur

 

FALLEGASTI LEIKURINN

Þó IM Bragi Þorfinnsson (2426) hafi þurft að gera sér 2.sætið að góðu þá átti hann fína spretti, einkum í seinni hluta mótsins. Bragi var lang stigahæsti skákmaður mótsins og með þátttökunni sýndi hann hugrekki sem vert er að halda á lofti. Það reynist oft þrautin þyngri að fá stigahærri skákmenn til að setjast að tafli í íslenskum skákmótum þegar útséð er með að þeir muni þurfa að berjast í hverri skák til að halda stigunum sínum. Þeir sem forðast að vera stigahæstir í skákmótum fara hins vegar á mis við mikilvæga lexíu sem felur í sér að þjálfa sig upp í að tefla vel gegn stigalægri andstæðingum.

Það var í 7.umferð sem Bragi Þorfinnsson fann loks reitina sína aftur eftir nokkuð brokkgenga taflmennsku fram að því. Bragi stýrði hvítu mönnunum gegn Hrafni Loftssyni (2163) og einkenndust flestir leikir Braga af áræðni og ásetningi. Snemma tafls sótti á Braga mikil fórnsótt sem áhorfendum þótti óvíst að ætti sér lækningu. Bragi sá lengra en aðrir og mundaði sleggjuna í 19.leik sem skildi eftir djúpa dæld í miðborðinu:

20180201_210710

Bragi Þorfinnsson lék 19.d4!! og áhorfendur tóku andköf.

Hrafn kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að erfiðum varnarleik og honum lánaðist að þvælast fyrir Braga og búa til möguleika á þráskák með því að opna taflið. Bragi sá hins vegar við öllu mótspili Hrafns og hafði sigur í afar skemmtilegri skák. Bragi gerði svo gott betur og vann síðustu tvær skákir sínar. Þá er jafnframt gaman að geta þess að að loknu Skákþingi Reykjavíkur hélt Bragi beint til hinnar norsku Kragaeyju hvar hann gerði sér lítið fyrir og landaði lokaáfanga sínum að langþráðum stórmeistaratitli.

 

LOKAORÐ

Enn einu glæsilegu Skákþingi Reykjavíkur er nú lokið. Öll úrslit mótsins og lokastaða er aðgengileg á Chess-Results. Sama gildir um skákir mótsins sem Daði Ómarsson sló inn. Skákstjórn var í höndum Ríkharðs Sveinssonar og Ólafs Ásgrímssonar.