Sigursælar TR-stelpur!



Um helgina fóru fram tvö Íslandsmót í stúlknaflokki. Á laugardeginum var Íslandsmót grunnskólasveita í stúlknaflokki haldið í Rimaskóla og á sunnudeginum var Íslandsmót stúlkna á grunnskólaaldri haldið á sama stað. TR-stelpurnar sem mynda harðasta kjarnann á stelpuskákæfingum Taflfélags Reykjavíkur tóku þátt og stóðu sig frábærlega vel!

Á Íslandsmóti grunnskólasveita í stúlknaflokki tóku 16 sveitir þátt. Mótið var tvískipt fyrir 1.-3. bekk og fyrir 1.-10. bekk. Í yngri flokknum tóku fjórar TR-stelpur þátt fyrir skólann sinn, Smáraskóla. Það voru þær Freyja Birkisdóttir, Vigdís Tinna Hákonardóttir, Helga María Svansdóttir og Benedikta Fjóludóttir. Þær unnu flokkinn með yfirburðum með 17,5 vinningi af 20 mögulegum og eru því Íslandsmeistarar í stúlknaflokki fyrir 1.-3. bekk!

 

Á Íslandsmóti stúlkna sem fram fór daginn eftir, sunnudaginn 1. febrúar tóku sex TR-stelpur þátt. Teflt var í þremur aldursflokkum og sigraði Nansý Davíðsdóttir í Fjölni í flokki 5.-10. bekkja.

TR átti fulltrúa í tveimur yngri flokkunum. Í flokki 3.-4. bekkja tóku þrár TR-stelpur þátt, þær Freyja Birkisdóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Vigdís Tinna Hákonardóttir. Keppendur voru 8 og Freyja gerði sér lítið fyrir og vann allar sínar skákir og er þar með Íslandsmeistari stúlkna í sínum flokki (3.-4. bekkja)! Vigdís Lilja fékk bronsið og Vigdís Tinna varð í 4. sæti. Glæsilegur árangur!

 

Í yngsta flokknum (1.-2. bekkur), átti TR einnig þrjá fulltrúa af sjö. Það voru þær Elsa Kristín Arnaldardóttir, Iðunn Helgadóttir og Sólveig Freyja Hákonardóttir (yngri systir Vigdísar Tinnu), sem röðuðu sér í þrjú efstu sætin! Elsa Kristín vann allar sínar skákir og er þar með Íslandsmeistari stúlkna í sínum flokki (1.-2. bekkja)! Iðunn fékk 5 vinninga og varð í 2. sæti og Sólveig Freyja fékk 4 vinninga og varð í 3. sæti. Þess má geta að Sólveig Freyja var þarna að tefla upp fyrir sig, því hún er enn aðeins 5 ára gömul og er í leikskóla!

Allar TR-stelpurnar sem tóku þátt í einstaklingskeppninni á sunnudaginn mynduðu stúlknalið TR á Íslandsmóti unglingasveita í nóvember sem leið. Það er því óhætt að segja að þessar stelpur séu komnar á skrið í skákinni!

 

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir