Sigurbjörn fer með himinskautum á Skákþinginu



Sigurbjörn Björnsson er með fullt hús.

Sigurbjörn er með fullt hús.

Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson er með fullt hús eftir sjö umferðir í Skákþingi Reykjavíkur. Magnaður árangur hjá Sigurbirni, en hann vann Vigni Vatnar Stefánsson síðastliðinn sunnudag í endatafli með drottningu gegn tveimur hrókum, en hrókar svarts voru einhvernveginn í klessu og auk þess hafði hvítur frípeð sem hægt var að ýta eftir smá tæknilega úvinnslu. Nú gefst Sigurbirni færi á að gera betur en Stefán Bergsson á sama móti árið 2018, en Stefán var einmitt með sjö af sjö, en tapaði gegn Braga Þorfinnssyni í áttundu umferð. Á öðru borði hélt Pétur Pálmi Harðarson jöfnu gegn alþjóðlega meistaranum Guðmundi Kjartanssyni, Pétur var peði yfir en gat ekki nýtt það til að kreista fram sigur. Á því þriðja lagði Davíð Kjartansson Aron Þór Mai og á fimmta borði átti f-línan eftir að sanna mátt sinn með hjálp þungu mannanna, þegar bróðir Arons, Alexander Oliver Mai, vann Mikael Jóhann Karlsson. Guðmundur og Davíð hafa 5.5 vinning fyrir áttundu umferð og fjórir skákmenn eru með fimm vinninga. Mint er á að skákir sex efstu borðana eru sýndar beint, til að mynda á chess24 og ChessBomb. Einnig hefur Þórir Benediktsson, stjórnarmaður í Taflfélagi Reykjavíkur og alþjóðlegur skákdómari, slegið inn skákir mótsins, og eru þær aðgengilegar undir flipanum “games” á chess-results

Er Íslands hluti af Skandinavíu?

Er Íslands hluti af Skandinavíu?

Þegar ungu mennini ýta Haraldi h-peði, fær greinarhöfundur sér te

Þegar ungu mennirnir ýta Haraldi h-peði, fær greinarhöfundur sér te

 

Fyrir upphaf sjöundu umferðar var afhjúpuð bronsmynd af Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara okkar Íslendinga, en styttan er gjöf frá Skáksögufélaginu. Einar S. Einarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra héldu stutta tölu, Birna bauð upp á glæsilegar veitingar, og fáir sátust að tafli án þess að hafa sporðrennt fáeinum flatkökum ásamt kaffidreitli og kökusneið. Myndir af styttunni, ræðu Einars S. og grein Hrafns Jökulssonar, má nálgast hér

Þetta er ekki Friðrik sjálfur, heldur stytta

Þetta er ekki Friðrik sjálfur, heldur stytta

Af óvæntum úrslitum má helst nefna sigur Mikaels Bjarka Heiðarssonar gegn Kristjáni Erni Elíassyni, en rúmlega 700 stiga munur er á þeim. Mikael Bjarki hefur staðið sig mjög vel á mótinu og er að hækka um rúm 120 stig. Að móti loknu verður farið betur yfir hverjir eru stigahástökkvarar mótsins, jafntefliskóngar, og fleira þvíumlíkt! 

Börnin munu jörðina erfa

Börnin munu jörðina erfa

Næsta umferð fer fram miðvikudagskvöldið 29. janúar. Þá fær Davíð hvítt gegn Sigurbirni, Guðmundur teflir við reynsluboltann Braga Halldórsson og Alexander mætir Pétri Pálma. Spennandi umferð framundan í Taflfélaginu þar sem línur verða lagðar fyrir lokaumferðina næstkomandi sunnudag. Binukaffi verður á sínum stað og vökul augu Friðriks Ólafssonar fylgjast með að allir komi drengilega fram við skákborðið.