Sigurbjörn Björnsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2020



Sigurbjörn Björnsson er með fullt hús.

Sigurbjörn Björnsson, Skákmeistari Reykjavíkur 2020

Sigurbjörn Björnsson er skákmeistari Reykjavíkur 2020 þegar einni umferð er ólokið. Hann vann sínu áttundu skák í röð síðastliðinn sunnudag, en þá lá Davíð Kjartansson í valnum. Smám saman náði Sigurbjörn að tína upp veik peð Davíðs og þegar uppskitpi á riddurum lágu í loftinu með töpuðu hróksendatafli í framhaldinu, kastaði Davíð handklæðinu. Sigurbjörn hefur einu sinni áður orðið Skákmeistari Reykjavíkur, árið 2007. Á öðru borði vann Guðmundur Kjartansson Braga Halldórsson eftir fremur rólega byrjun en eftir skyndilega peðaframrás á kóngsvæng varð Bragi varnarlaus. Tíðindalaust jafntefli var á þriðja borði í skák þeirra Alexanders Olivers Mai og Péturs Pálma Harðarsonar og Vignir Vatnar Stefánsson vann Eirík K. Björnsson á fjórða borði eftir frekar furðulega skák. Úrslit og stöðu mótsins, auk skáka fyrstu sjö umferðanna má nálgast á chess-results.

Guðmundur og Bragi

Guðmundur og Bragi

Kaffi, te, eða Powerade?

Kaffi, te, eða Powerade?

Í öðru sæti í mótinu er Guðmundur Kjartansson með 6.5 vinning og í því þriðja er Vignir Vatnar með 6 vinninga. Jafnir með 5.5 vinning í fjórða til áttunda sæti eru þeir Davíð Kjartansson, Alexander Oliver Mai, Pétur Pálmi Harðarson, Gauti Páll Jónsson og Júlíus Friðjónsson. Í lokaumferðinni mætir Sigurbjörn pistlaritara mótsins, Gauta Páli Jónssyni. Það er TR slagur á öðru borði hvar Júlíus Friðjónsson mætir Guðmundi Kjartanssyni, á þriðja borði teflir Alexander Oliver við Vigni Vatnar og á því fjórða mætast Pétur Pálmi og Davíð Kjartansson. Guðmundur og Vignir reyna að ná öðru sæti í mótinu, en þónokkrir skákmenn með 5.5 vinning fyrir lokaumferðina geta þó sett strik í reikninginn. Skemmtileg umferð framundan! Áhorfendur eru hjartanlega velkomnir að fylgjast með og fá sér jafnvel kaffi og vöfflu hjá Birnu líka. Miðvikudagskvöldið 5. febrúar verður Hraðskákmót Reykjavíkur haldið og að því loknu verður verðlaunaafhending fyrir Skákþingið. Þáttakendur í mótinu, auk annarra skákáhugamanna eru hvattir til að mæta á hraðskákmótið! Að lokum minni ég á að hægt verður að fylgjast með lokaumferðinni beint, til dæmis á skákvefnum chess24