Pistill frá Guðmundi KjartanssyniGuðmundur Kjartansson, verðandi alþjóðlegur meistari, hefur sent frá sér pistil til birtingar á heimasíðu Taflfélags Reykjavíkur:

Skáksumarið 2009

Í upphafi sumars ákvað ég að skipuleggja þriggja móta ferð, með það að að marki að ná síðasta alþjóðlega áfanganum, komast yfir 2400 stiga „múrinn“ og þannig jafnframt tryggja mér alþjóðameistaratitil. Fyrsta mótið, First Saturday í Búdapest þar sem ég tók þátt í IM-flokki, er nýafstaðið og við taka stórmeistarflokkur í London, sem er frumraun enska stórmeistarans og Íslandsvinarins Simon Williams í mótaskipulagningu, og svo skoska meistaramótið sem er opið og alþjóðlegt í ár.

Ferðin byrjar nokkuð vel þar sem ég náði að landa síðasta alþjóða áfanganum mínum og hækka eitthvað á stigum hér í Búdapest. Ég byrjaði mótið vel með sigri í fyrstu þremur umferðunum og var orðinn nokkuð bjartsýnn á klára þetta örugglega en hefði líklega átt að vera varkárari í fjórðu umferð gegn ungverska alþjóðameistaranum Pál Pétran 2366. Ég fékk fín færi úr byrjuninni en lagði of mikið á stöðuna þegar rólegri leiðir hefðu verið ákjósanlegri og uppskar erfitt tap í 83. leikjum. Nældi mér svo í góðan sigur í 5.umferð og var því með fjóra vinninga af fimm eftir fyrri helminginn, en tefld var tvöföld umferð, allir við alla. Enn átti ég því góða möguleika á að ná áfanganum en gerði mér aftur erfitt fyrir með kæruleysislegu tapi í 6.umferð. Svo þetta var allt annað en ljóst og fjórar erfiðar skákir eftir. Sigur í 9.umferð gegn Pétran með svörtu hefði dugað fyrir áfanga en ég tók skynsama ákvörðun og bauð jafntefli þegar ég sá að stefndi í nokkuð óljóst miðtafl og var sáttur að hann skyldi þiggja boð mitt. Þetta þýddi að í 10.umferðinnni var það annaðhvort allt eða ekkert svo ég reyndi að undirbúa mig þokkalega og ná góðum svefn en loka umferðin byrjaði kl.10 að morgni. Undanfarnir dagar höfðu einkennst af orkuleysi og slappleika en ég og bandarískur félagi minn Erik Kislik, sem tefldi í stórmeistaraflokki, veiktumst lítillega eftir ferð á tyrkneskan veitingastað. En þar sem ég vissi að eftir þessa skák tæki við kærkomin hvíld ákvað ég að gefa allt í hana. Svo ég mætti galvaskur til leiks þennan ágæta morgun og reiðubúinn fyrir alvöru bardaga. Fljótlega hrifsaði ég þó til mín allt frumkvæði og fékk hálf unna stöðu. Samt sem áður þurfti ég að fara varlega og tefla af nákvæmni þar sem slíkar skákir hafa oft sín eigin lögmál. Að lokum tókst mér þó að innbyrða vinninginn án of mikilla vandkvæða og áfanginn í höfn.

Þegar þetta er skrifað er ég enn staddur í Búdapest þar sem ég nota tímann til að safna orku fyrir næsta mót, sem fer fram í London, og undirbúa mig skáklega. Þó að áfangarnir þrír séu komnir í hús þá er samt mikilvægt að halda einbeitingu og er stefnan sett á að komast yfir 2400 stig áður en ferðin er á enda.

 

Guðmundur Kjartansson