Óvænt úrslit í 1.umferð Skákþings ReykjavíkurMargar skemmtilegar skákir voru tefldar í skáksal Taflfélags Reykjavíkur á miðvikudagskvöld þegar flaggskip félagsins, Skákþing Reykjavíkur, lagði úr höfn. Það má með sanni segja að þetta sögufræga skákmót hafi byrjað með látum. Stigahærri skákmenn þurftu margir hverjir að hafa mikið fyrir viðureignum sínum gegn þeim stigalægri svo oft skall hurð nærri hælum. Þó svo stigamunurinn væri 500-900 stig þá var handagangurinn í öskjunni slíkur að eitthvað varð undan að láta. Þessari fyrstu umferð lauk með þremur óvæntum úrslitum sem kann að gefa fyrirheit um það sem koma skal í Skákþinginu þetta árið.

IMG_9649

Frá 1.umferð Skákþings Reykjavíkur 2018.

Skákþing Reykjavíkur var fyrst haldið árið 1932. Þá fór með sigur úr býtum hinn sexfaldi Íslandsmeistari Ásmundur Ásgeirsson. Síðan þá hafa margir af fremstu skákmönnum þjóðarinnar hampað Reykjavíkurmeistaratitlinum, enginn þó oftar en stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson; alls sjö sinnum. Á meðal sigurvegara eru stórmeistararnir Friðrik Ólafsson (1960, 1963, 1975), Margeir Pétursson (1980), Helgi Ólafsson (1976, 1977), Hjörvar Steinn Grétarsson (2009, 2010), Stefán Kristjánsson (2002, 2006) og Jón L. Árnason (1981).

Keppendur Skákþingsins þetta árið eru alls 57 og þar á meðal eru tveir fyrrum Reykjavíkurmeistarar. Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2426), sem vann mótið árið 2004, og FIDE-meistarinn Sigurbjörn J. Björnsson (2288), sem varð hlutskarpastur árið 2007, þykja báðir sigurstranglegir. Aðrir titilhafar sem munu vafalítið blanda sér í toppbaráttuna eru alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson (2336), FIDE-meistarinn Dagur Ragnarsson (2332), FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2304) og stórmeistari kvenna Lenka Ptácníková (2218).

Mótið hófst á því að skákdrottningin Birna Halldórsdóttir lék fyrsta leikinn á efsta borði í skák Einars Hjalta (2336) sem hafði hvítt gegn Óskari Long Einarssyni (1785). Birna hefur ásamt manni sínum, Ólafi Ásgrímssyni, staðið staðföst vaktina hjá Taflfélagi Reykjavíkur í áratugi og hafa þau hjónin gætt félagið einstöku og ómetanlegu lífi. Það fór vel á því að Birna léki fyrsta leikinn í einu elsta og virtasta skákmóti þjóðarinnar þar sem Ólafur gegnir embætti skákstjóra. Birna lék kóngspeði Einars Hjalta fram um tvo reiti og var sem peðið öðlaðist fítonskraft því það reyndist örlagavaldur snemma tafls. Töfrar Birnu eru órannsakanlegir.

IMG_9646

Birna Halldórsdóttir lék kóngspeði Einars Hjalta fram um tvo reiti – Einar tveir til Einar fjórir (nema hvað!).

Í þessari fyrstu umferð urðu þau tíðindi helst að fyrrum formaður Taflfélags Reykjavíkur, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (1734), skellti Degi Ragnarssyni (2332) með hvítu. Dagur geystist upp drottningarvænginn og með óstöðvandi frípeð á b-línunni stóð pilturinn með pálmann í höndunum. Sjaldgæf villa hefur slæðst í útreikningana hjá Degi því hann bauð upp á varhugaverð drottningakaup sem umturnuðu taflinu. Skyndilega blasti við mát uppi í borði, óleysanleg leikþröng og Sigurlaug stóð til vinnings. Hún setti örlögin í hendur Guðsmannsins sem dansaði um borðið undir lok skákarinnar þar til hann komst á a3-f8 skálínuna og vinningurinn var í höfn.

Rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason (1539) gerði sér lítið fyrir og vann MR-inginn Gauta Pál Jónsson (2161) í nokkuð sérkennilegri Sikileyjarvörn þar sem Gauti Páll pakkaði inn peði og færði rektornum að gjöf í skiptum fyrir virka menn og betri peðastöðu. Þó grunsamlega pakka beri að nálgast af varúð þá þáði rektorinn gjöfina án nokkurra eftirmála. Hann stóð af sér allt sprikl Gauta Páls og hafði að lokum sigur í 45 leikjum.

Gamla brýnið Jón Úlfljótsson (1687) hélt upp á 50 ára Skákþingsafmælið sitt með því að læsa hurðum og henda lyklinum gegn Sigurbirni J. Björnssyni (2288). Þó sögur fari af þróttmiklum keppnismönnum í Faxafeninu sem komist hafa í gegnum læstar hurðar þá reyndist staða Jóns svo rammgirt að vel vopnum búinn sérsveitarmaður hefði þurft frá að hverfa. Jón og Sigurbjörn sættust því á skiptan hlut eftir 41 leik.

IMG_9650

Íslenskukennarinn og rithöfundurinn Bragi Halldórsson sést hér í þann mund að hefja framrás kóngspeðsins.

Önnur úrslit þessarar viðburðaríku 1.umferðar voru samkvæmt hinni víðfrægu bók. Engu að síður voru margir meistarar framtíðarinnar hársbreidd frá því að gera þaulvönum keppnismönnum skráveifu. Þessi fyrsta umferð lofar því svo sannarlega góðu fyrir framahaldið og eru skákunnendur hvattir til þess að taka þátt í veislunni með því að líta við í skáksalinn. Hörkuskákir eru framundan í 2.umferð mótsins sem hefst næstkomandi sunnudag klukkan 13:00. Íslenskukennarinn og rithöfundurinn Bragi Halldórsson (2082) stýrir þá hvítu mönnunum á efsta borði gegn Einari Hjalta (2336). Á öðru borði hefur Aron Þór Mai (2066) hvítt gegn stórmeistarabananum Vigni Vatnari (2304).

Taflfélag Reykjavíkur mun sem fyrr þjónusta skákáhugamenn með öflugri úrslitaþjónustu, leiftursnöggum innslætti skáka, glóðvolgum ljósmyndum úr skáksal og kræsingum úr eldhúsinu. Þeir skákáhugamenn sem ekki eiga heimangengt geta fylgst með skákum efstu borða í beinni útsendingu á netinu.

Skákir 1.umferðar ásamt úrslitum og mótstöflu má finna á Chess-Results.