Mykhaylo Kravchuk sigurvegari fyrstu Bikarsyrpu TR



Fyrsta skákmótið í Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur lauk í dag með sigri TR-ingsins Mykhaylo Kravchuk. Mykhaylo leyfði aðeins eitt jafntefli í mótinu og tryggði sigurinn í fimmtu og síðustu umferð með sigri á Róberti Luu. Í 2.sæti varð Óskar Víkingur Davíðsson úr Skákfélaginu Huginn með 4 vinninga en hann lagði TR-inginn Þorstein Magnússon að velli í lokaumferðinni í mikilli spennuskák. Guðmundur Agnar Bragason úr TR fékk einnig 4 vinninga en hann hlaut 3.sætið eftir stigaútreikning. Í fjórða sæti, einnig með 4 vinninga, en lægri á stigum var TR-ingurinn Aron Þór Mai.

Lokastöðu mótsins fá finna hér.

Alls tóku 25 krakkar þátt í mótinu og mátti heyra saumnál detta í skáksalnum alla helgina, slík var einbeitingin. Sumir krakkanna voru að tefla á sínu fyrsta stóra skákmóti og stóðu þau sig öll með prýði við skákborðið. Sérstaklega var gaman að fylgjast með þeim nota tímann sinn vel sem og að vanda sig við að skrifa leikina. Sumir vönduðu sig svo mikið að skorblöðin urðu hreinustu listaverk. Þeir krakkar sem voru að stíga sín fyrstu skref í alvöru kappskákmóti fengu kannski ekki öll marga vinninga, en þau hlutu dýrmæta reynslu því það er mjög stórt skref að taka þátt í sínu fyrsta alvöru skákmóti. Þessir krakkar munu án efa nýta sér fengna reynslu í þeim mótum sem framundan eru í vetur.

Þetta fyrsta mót Bikarsyrpunnar stóð svo sannarlega undir væntingum. Það er góður stökkpallur fyrir óreynda skákkrakka sem langar að tefla á kappskákmótum en hræðast tilhugsunina um að tefla við fullorðna og jafnvel mjög sterka skákmenn. Mótið er líka kjörinn vettvangur fyrir þá skákkrakka sem hafa hug á að ná sér í sín fyrstu skákstig, eða bæta við sig skákstigum.

Næsta mót Bikarsyrpunnar er fyrirhugað helgina 10.-12.október og hvetjum við alla hressa skákkrakka til að láta sjá sig og taka þátt í þessu skemmtilega móti.