Tólf keppendur efstir á KORNAX mótinu



Önnur umferð var tefld í gærkvöldi í Skákhöllinni, Faxafeni.  Stemningin var sérstaklega góð og lá nýútgefið fréttablað Taflfélags Reykjavíkur meðal annars frammi þar sem viðstaddir blöðuðu óspart í því á meðan þeir skröfuðu um gang mála í Skákþinginu.  Fréttablaðið er að auki aðgengilegt á rafrænu formi (pdf) og má nálgast það með því að smella á hlekk hér að neðan.

 

En þá að úrslitum annarar umferðar.  Stigamunur var enn mikill, lítið var um óvænt úrslit og þeir stigahærri á efstu borðum unnu allir örugga sigra á sínum andstæðingum.  Af helstu úrslitum má nefna að Fide meistarinn Davíð Kjartansson sigraði Atla Antonsson, Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson sigraði Dag Ragnarsson og stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova hafði betur gegn Jóni Úlfljótssyni.

 

Þá er vert að nefna að Hilmar Þorsteinsson gerði jafntefli við hinn margreynda Júlíus L. Friðjónsson og sömuleiðis gerði Birkir Karl Sigurðsson jafntefli við alþjóðlega meistarann Sævar Bjarnason en þess má geta að Birkir Karl hefur verið í töluverðri uppsveiflu að undanförnu og hefur hækkað um tæp 300 skákstig á tæpum tveimur árum.

 

Þriðja umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Eins og gengur heldur stigamunur andstæðinga áfram að minnka og erfiðara verður að spá fyrir um úrslit.  Á efsta borði fær Jóhann H. Ragnarsson það erfiða hlutverk að eiga við Davíð, og á öðru borði verður athyglisverð viðureign á milli Einars Hjalta og hins unga og efnilega Olivers Arons Jóhannessonar en Oliver hefur einnig verið í mikilli framför og hækkað um meira en 300 skákstig á tæpu ári.  Á þriðja borði mætast svo formaður Taflfélags Garðabæjar, Páll Sigurðsson, og Lenka.  Það verður fróðlegt að sjá hvort „viltur“ skákstill Páls slái Lenku út af laginu.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur síðustu ára
  • Myndir (JHR)
  • Fréttablað T.R.