Mikil spenna fyrir lokaumferð Haustmótsins



Í áttundu umferð Haustmóts TR sem fram fór í gærkveldi bar það helst til tíðinda að Torfi Leósson sigraði efsta mann mótsins, Davíð Kjartansson.  Á sama tíma gerða Hrafn Loftsson jafntefli við Jóhann H. Ragnarsson og náði þar með Davíð að vinningum en þeir eru efstir og jafnir með 5,5 vinning en Torfi er þriðji með 5 vinninga.  Því er einnig ljóst að Torfi og Hrafn munu berjast um titilinn Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur.

Í b-flokki stendur Bjarni Jens Kristinsson með pálmann í höndunum eftir sigur á Þóri Benediktssyni í mikilli flækjuskák og nægir jafntefli gegn Jorge Fonseca í síðustu umferðinni til að tryggja sér sigur í flokknum.  Sannarlega glæsilegur árangur hjá Bjarna sem er stigalægsti keppandi b-flokks en hefur sem stendur unnið sér inn 66 elo stig!  Bjarni hefur hlotið 6,5 vinning, Jorge 5,5 og Helgi Brynjarsson og Stefán Bergsson eru í 3.-4. sæti með 4,5 vining.

Ólafur Gísli Jónsson heldur forystunni í c-flokki með 6 vinninga en Páll Sigurðsson getur náð honum sigri hann í skák sem hann á frestaða.  Þess má geta að Ólafur og Páll mætast einmitt í síðustu umferðinni.

Mikil spenna er í d-flokknum þar sem Hörður Hauksson og Barði Einarsson deila 1.-2. sæti með 5,5 vinning en Rafn Jónsson fylgir í humátt með 5 vinninga.

Páll Andrason heldur vinningsforskoti í e-flokki en hann hefur verið í efsta sæti mestan part mótsins.  Jafnir í 2.-3. sæti eru Emil Sigurðarson og Hjálmar Sigurvaldason með 6 vinninga.

Níunda og síðasta umferð verður tefld á föstudagskvöld kl. 19.30 og eru áhorfendur hvattir til að mæta og fylgjast með lokauppgjörinu og gæða sér um leið á ljúffengum veitingum að hætti Birnu, heiðursfélaga Taflfélags Reykjavíkur.

  • Chess-Results
  • Skákir mótsins