Lokamót Páskaeggjasyrpunnar fer fram á sunnudag!



Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hefur slegið rækilega í gegn en mikill fjöldi krakka hefur tekið þátt í mótum syrpunnar.  Í ár endurtökum við leikinn og með þessu framtaki vill T.R. í samstarfi við Nóa Síríus þakka þeim gríðarlega fjölda sem sótt hefur barna- og unglingaæfingar félagsins í vetur.

Þriðja og lokamót syrpunnar fer fram næstkomandi sunnudag og hefst venju samkvæmt kl. 14.  Skráningarform má finna hér að neðan og hafi viðkomandi bara skráð sig í mót 1 eða 2 er lítið mál að skrá sig aftur og velja viðeigandi mót.  Í fyrsta mótinu sigraði Bárður Örn Birkisson í eldri flokki en í þeim yngri sigraði Gunnar Erik Guðmundsson.  Í öðru mótinu sigraði Stephan Briem í eldri flokki og Gunnar Erik Guðmundsson endurtók leikinn frá fyrsta mótinu og sigraði í yngri flokki.  Heildarúrslit má sjá hér.

Frábærar aðstæður eru hjá Taflfélagi Reykjavíkur, margir reyndir þjálfarar og félagið býður eitt félaga upp á ítarlegasta námsefni sem völ er á hér á landi. Allar æfingar og allt námsefni er frítt, það þarf bara að mæta og taka þátt í þessum stórskemmtilegu æfingum!

Mótin í ár verða reiknuð til alþjóðlegra hraðskákstiga og glæsileg verðlaun eru í öllum mótunum, sem og fyrir samanlagðan árangur úr þeim öllum.  Í hverju móti verður síðan dregin út glæsileg skákklukka handa einum heppnum þátttakanda.

Páskaeggjasyrpan  samanstendur af þremur skákmótum sem haldin eru þrjá sunnudaga fyrir páska í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12:

1. NÓA KROPP PÁSKAEGGJAMÓTIÐ. Sunnudaginn 6. mars kl. 14

2. NIZZA LAKKRÍS PÁSKAEGGJAMÓTIÐ. Sunnudaginn 13. mars kl. 14

3. NIZZA HRÍSKÚLU PÁSKAEGGJAMÓTIÐ. Sunnudaginn 20. mars kl.14

Keppt verður í tveimur flokkum, 1-3 bekk (og yngri) og 4-10 bekk.
Sex umferðir verða tefldar í hverju móti með 10 mínútna umhugsunartíma á mann.
Glæsileg verðlaun eru í boði fyrir alla hressu skákkrakkana sem taka þátt í syrpunni!
Verðlaunapeningar fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki á hverju páskaeggjamóti.
Stór páskaegg fyrir þrjú efstu sætin samanlagt úr mótunum í hvorum flokki (misstór eftir sætum)
Allir sem taka þátt í minnst tveimur af þremur mótum í syrpunni fá lítið páskaegg í verðlaun fyrir þátttökuna og verða þau veitt í lok þriðja mótsins í syrpunni.
Dregin verður út ein glæsileg skákklukka handa heppnum skákkrakka á hverju páskaeggjamóti!

Skráningarform

Skráðir keppendur

Taflfélag Reykjavíkur og Nói Síríus hlakka til að sjá ykkur á PÁSKAEGGJASYRPUNNI 2016!