Fátt óvænt í 1. umferð Skákmóts öðlinga



Tæplega 30 keppendur taka að þessu sinni þátt í Skákmóti öðlinga sem hófst síðastliðinn miðvikudag í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur.  Segja má að úrslit fyrstu umferðar hafi verið eins og við var búist en þó gerðu Haraldur Baldursson (2000) og Kristinn J. Sigurþórsson (1749) jafntefli.  Á fyrsta borði sigraði stigahæsti keppandi mótsins og Öðlingameistari 2012 og 2013, Þorvarður Fannar Ólafsson (2245), Guðmund Aronsson (1790) en báðir tefldu þeir fyrir hönd félagsins í nýafstöðnu Íslandsmóti skákfélaga líkt og fleiri af þátttakendum Öðlingamótsins.

Þorvarður er langstigahæstur keppenda því tæpum 200 stigum á eftir honum kemur Ögmundur Kristinsson (2062) og þá Halldór Pálsson (2021) og Haraldur Baldursson (2000).  Þorvarður telst því langsigurstranglegastur á mótinu en eins og aldrei er of oft kveðið þá tefla stigin ekki og í mótinu eru allmargir sem geta vissulega gert honum skráveifu.

Önnur umferð fer fram miðvikudagskvöldið 8. apríl og verða klukkurnar settar í gang á slaginu hálf-átta.  Þá mætast m.a. Þorvarður og barnalæknirinn sókndjarfi, Ólafur Gísli Jónsson, Einar Valdimarsson og Ögmundur sem og Halldór og Kristján Halldórsson.  Heitt er á könnunni og eru áhorfendur sérstaklega velkomnir.  Skákir fyrstu umferðar eru aðgengilegar hér.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Öðlingameistarar
  • Mótstöflur
  • Myndir