Jón L. Árnason sigraði á Stórmeistaramóti CCP og MP bankaFriðrik Ólafsson yljaði skákunnendum með glæsilegri fórnarskák.

Jón L. Árnason bar sigur úr býtum á velheppnupu stórmeistaramóti CCP og MP banka sem haldið var í tilefni 110 ára afmælisárs Taflfélags Reykjavíkur. Jón L. fékk 5 vinninga af 7 mögulegum og hlaut að launum veglegan bikar auk dágóðrar peningaupphæðar. Fast á hæla hans fylgdu félagar hans úr „fjórmenningaklíkunni“ frægu þeir Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson, hálfum vinningi á eftir Jóni. Friðrik Ólafsson deildi fjórða til sjöunda sæti með Helga Áss Grétarssyni, Guðmundi Kjartanssyni og Þresti Þórhallssyni. Arnar E. Gunnarsson nýbakaður Atskákmeistari Íslands rak lestina að þessu sinni sem sýnir í raun hversu velskipað mótið var. Friðrik Ólafsson stórmeistari, sem verður 75 ára seinna í mánuðinum, sýndi gamalkunnug glæsitilþrif er hann lagði Guðmund Kjartansson að velli. Hann fórnaði báðum biskupunum fyrir óverjandi sókn sem leiddi til sigurs. Hlaut hann að launum verðskuldað lófaklapp hinna fjölmörgu skákunnenda sem mættir voru til að fylgjast með. Öllum skákunum var streymt samtímis um heim allan á Internetinu. Margeir Pétursson,  félagi efstu manna úr ´“fjórmenningaklíkunni“, fylgdist með á Netinu austan úr Kænugarði. Hann sendi keppendum kveðjur sínar og benti á að svipað stef, tvöfalda biskupsfórnin, hefði komið upp í sögufrægri skák Emanuels  Laskers, seinna heimsmeistara,  gegn Johanni Herman Bauer  í Amsterdam1889. Friðrik Ólafsson bætti um betur og nefndi einnig til sögunnar sama stef í skák Nimzovich-Tarrasch í St. Petersburg  1914. Það er ekki komið að tómum kofanaum hjá þessum köppum! Mótið var haldið í salarkynnum CCP og var allur aðbúnaður til mikillar  fyrirmyndar. CCP og MP banki eiga sannarlega þakkir skildar fyrir þennan myndarlega stuðning við skákhreyfinguna.