Hannes hafnaði í 1.-4. sæti á Rvk open!Hannes Hlífar Stefánsson (2563) lauk þátttöku á Reykjavíkurmótinu með sigri og tryggði sér þar með efsta sætið með 7 vinninga ásamt Héðni Steingrímssyni (2547), sem einnig vann í síðustu umferðinni, Yuriy Kryvoruchko (2604) og Mihail Marin (2556).  Eftir stigaútreikning telst Héðinn sigurvegari mótsins og Hannes hafnar í því þriðja.

Glæsilegur árangur hjá Hannesi, sem tapaði ekki skák í mótinu, og óskar stjórn Taflfélags Reykjavíkur honum til hamingju með árangurinn.

Stefán Kristjánsson (2472) og Guðmundur Kjartansson (2365) sigruðu einnig sínar viðureignir og ljúka keppni með 5,5 vinning líkt og Þröstur Þórhallsson (2442) sem beið lægri hlut að þessu sinni.  Kristján Örn Elíasson (1940) kórónaði árangur sinn með jafntefli gegn Róberti Lagerman (2368) og endar með 4,5 vinning ásamt 40 skákstigum í gróða og árangri sem samsvarar 2209 skákstigum.

Frímann Benediktsson (1939) vann einnig sinn andstæðing og klárar mótið í góðum stigagróða.  Þá vann Víkingur Fjalar Eiríksson (1882) og Björn Jónsson (2012) gerði jafntefli við stórmeistara kvenna en Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir (1775), Páll Andrason (1564) og Birkir Karl Sigurðsson (1355) töpuðu öll.

Geirþrúður komst á gott flug um miðbik mótsins en tapaði síðustu þrem skákum sínum.  Hún hækkar engu að síður um 25 skákstig og það verður spennandi að fylgjast með henni á næstunni.  Víkingur tapar um 13 skákstigum en þetta mót fer í reynslubankann og vonandi heldur hann áfram að sjást á mótum.

Birkir og Páll áttu undir högg að sækja enda mjög sterkt mót fyrir þá.  Þeir eiga þó að geta gert betur og þurfa að temja sér að nýta tímann sinn betur í skákunum.  Haldi þeir áfram munu þeir fara upp stigalistann á næstu árum.

 

Til hamingju, Hannes Hlífar!