Ísak Orri sigraði á fyrsta móti Bikarsyrpunnar20160911_171055

Ísak Orri Karlsson (1148) kom, sá og sigraði á afar spennandi upphafsmóti Bikarsyrpu TR sem fram fór um liðna helgi. Tefldar voru sjö umferðir og hlaut Ísak 6 vinninga en næst honum með 5 vinninga komu Joshua Davíðsson (1411) og Batel Goitom.

20160911_160354

Viðureign Ísaks Orra og Árna var æsispennandi.

Mótið einkenndist af mikilli spennu og þegar kom að lokaumferðinni höfðu tveir keppendur 5 vinninga og aðrir tveir 4 vinninga þannig að allt gat gerst enda breyttist staða keppenda ört þegar úrslit úr síðustu umferðinni tóku að detta inn. Á efsta borði stýrði hin unga Batel Goitom hvítu mönnunum gegn Joshua og var ekkert á því að gefa eftir í baráttunni við stigahæsta keppanda mótsins. Örugglega færði hún mennina til á borðinu köflótta, vann snemma lið og sigldi sigrinum án mikillar hættu í höfn. Þar með var Batel komin í hóp keppenda sem höfðu 5 vinninga og að jafntefli gegn Árna Ólafssyni (1156) á öðru borði myndi duga Ísaki Orra til sigurs í mótinu.

20160911_160327

Einbeittir keppendur í Bikarsyrpunni.

Ísak hafði hvítt gegn Árna og úr varð afar jöfn og spennandi orrusta þar sem hnífjafnt var í liði og staðan nánast samhverf alveg þar til Ísak vann peð og fékk í kjölfarið vænlega stöðu í endatafli þar sem þeir félagar höfðu sinn hrókinn hvor. Árni varðist hvað hann gat en þegar Ísak knúði fram uppskipti á hrókunum sá Árni sæng sína uppreidda og lagði niður vopn. Sem fyrr segir stóð Ísak Orri því uppi sem sigurvegari mótsins, einn með 6 vinninga, og er sannarlega vel að sigrinum kominn. Þess má til gamans geta að Ísak ætlaði sér að taka yfirsetu fyrr í mótinu en eftir góða byrjun snérist honum hugur og kom sú ákvörðun honum sannarlega til góða.

20160911_160342

Askur Ari Davíðsson stýrir hér hvítu mönnunum gegn Magnúsi Hjaltasyni.

Við óskum Ísaki til hamingju með sigurinn og þökkum keppendum fyrir skemmtilegt mót en afar gefandi er að fylgjast krökkunum við skákborðin því framfarirnar leyna sér ekki, sama hversu langt þau eru komin. Munum að það eru alltaf jákvæðir og lærdómsríkir punktar sem hægt er að taka úr öllum skákum, og skiptir þá ekki máli hvort við unnum, töpuðum eða gerðum jafntefli.

Sjáumst á næsta móti Bikarsyrpunnar sem fer fram fyrstu helgina í nóvember.