Gríðarleg spenna fyrir lokaumferð U-2000 mótsins: ATH lokaumferðin fer fram nk. þriðjudagATH! Lokaumferð U-2000 mótsins fer fram næstkomandi ÞRIÐJUDAG 26. nóvember og hefst kl. 19.30!

Mikil spenna er hlaupin í U-2000 mótið en eftir sex umferðir eru Þór Valtýsson, Hrund Hauksdóttir, Tinna Kristín Finnbogadóttir, Páll Snædal Andrason og Sigurjón Haraldsson efst og jöfn með 5 vinninga. Sigurjón Þór Friðþjófsson kemur næstur með 4,5 vinning og þar á eftir fylgja tólf keppendur með 4 vinninga.

Spennandi staða fyrir lokaumferðina.

Spennandi staða fyrir lokaumferðina.

Skákkonurnar hafa ekkert gefið eftir í þessu móti, þrjár af þeim tefldu á tveimur efstu borðunum í gærkveld, og fyrir síðustu umferðina eru fjórar í efstu átta sætunum. Tinna og Þór sömdu jafntefli á efsta borði eftir friðsama skák og á öðru borði náði Hrund að brjótast í gegn á kóngsvæng Lissethar M. Acevedo og vann sannfærandi. Páll Andrason og Sigurjón Haraldsson unnu báðir sannfærandi sigra á þriðja og fjórða borði. Björn Grétar Stefánsson er Houdini mótsins – í annað skipti vinnur hann skák þar sem flestir myndu gefast upp og hefur hann hækkað mest allra á stigum eða um rúmlega 80 skákstig. Athyglisverðustu skák kvöldsins tefldu Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Joshua Davíðsson. Jóhanna Björg var alltaf með betra og náði að pressa andstæðinginn til baka á taflborðinu en Joshua varðist vel, skipti upp á mönnum og slapp næstum því en lagleg leikþröng gerði þó að lokum út um skákina.

Tinna og Þór voru friðsöm að þessu sinni og sömdu um skiptan hlut.

Tinna og Þór voru friðsöm að þessu sinni og sömdu um skiptan hlut.

Hart var barist á öllum borðum – bara 4 jafntefli í 30 skákum. Ungu stúlkurnar og strákarnir notuðu tímann vel og tefldu ótrúlega góðar skákir. Gaman er að fylgast með þeim, sérstaklega þegar þau mæta eldri og reyndari keppendum þar sem þau gefa þeim lítið eftir.

Hvað væri TR án Birnu-kaffis ? Alltaf heitt á könnunni og griðastaður í hita leiksins. Allir velkomnir! Öll úrslit á Chess-Results.

Minnum aftur á að lokaumferðin fer fram næsta þriðjudag en þá ráðast úrslitin með æsispennandi viðureignum.

Pörun efstu keppenda í lokaumferðinni.

Pörun efstu keppenda í lokaumferðinni.