Gauti Páll sigurvegari á spennandi Þriðjudagsmóti



Þeim Vigni Vatnari Stefánssyni og Gauta Pál Jónssyni hefur vegnað vel á Þriðjudagsmótum og það var því að vonum að þeir tefldu hreina úrslitaskák í síðustu umferð á líflegu móti síðasta þriðjudag. Áður hafði Gauti lagt Torfa Leósson, öruggan sigurvegara Þriðjudagsmótsins vikuna áður, í 3. umferð. Skák þeirra Vignis og Gauta hófst á Bird’s byrjun sem varð að Froms Gambít og skipti síðan yfir í Kóngsbragð (1 f4!? e5!? 2 e4 d5 3 exd5 exf4!?), svo ekki var nema von að líf yrði í tuskunum. Upp kom vandtefld staða þar sem Vignir var tveimur peðum yfir og peðastaða Gauta ekki beysin en hann hafði bætur: Báðir hrókar á 7. reitaröð og þegar hann náði síðan á undraverðan hátt að koma kóngnum á sömu reitaröð, voru úrslitin ráðin. Gauti hafði því sigur í mótinu en þeir Vignir og Torfi í 2. og 3. sæti. Jafn þeim að vinningum en aðeins lægri á stigum var síðan Bjarni Þór Guðmundsson.
Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.
Næsta þriðjudagsmót verður 2. mars. Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.
Fyrir þá sem ekki vilja bíða eftir því, má benda á Skákfélag Selfoss og nágrennis er að hefja mótaröð með svipuðu fyrirkomulagi fimmtudaginn 25. febrúar, svo það er líka hægt að skella sér á Selfoss og taka nokkrar atskákir í Fischersetrinu.