Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga – Barnasveitir TRSigurlaug R. Friðþjófsdóttir skrifar

Í fjórðu deild tefldi Taflfélag Reykjavík fram tveimur barnasveitum, TR unglingasveit A og TR unglingasveit B. Sveitirnar voru skipaðar áhugasömustu og virkustu skákkrökkum félagsins, stelpum og strákum, sem hafa hvað mest sótt skákæfingar TR undanfarin misseri. Alls tefldu 18 börn í þessum tveimur liðum, 7 stelpur og 11 strákar. Svo mikill var áhuginn að það munaði litlu að C- sveit liti dagsins ljós. En ákveðið var þó að hafa sveitirnar frekar tvær og hafa varamenn til taks, því reynslan sýnir að alltaf geta komið upp óvænt forföll, jafnvel með stuttum fyrirvara á mótsdegi.

20171022_105839

TR – unglingasveit A

Liðsmenn: Freyja Birkisdóttir, Batel Haile Goitom, Kristján Dagur Jónsson, Alexander Már Bjarnþórsson, Adam Omarsson, Benedikt Þórisson, Alexander Björnsson og Einar Tryggvi Petersen.

A -sveitin tefldi í 1. umferð við KR – b sveit, sem hafði liðsmenn á að skipa sem voru að jafnaði 300-600 stigum hærri en okkar fólk! Svo fór að okkar lið tapaði 5:1, en á 5. borði vann Benedikt
Þórisson KR liðsmanninn Kristján Stefánsson, sem var 546 stigum hærri en Benedikt. Glæsilegt hjá Benedikt sem er um þessar mundir í mikilli framför. Í 2. umferð tefldi A-liðið okkar við unglingalið Skákdeildar Breiðabliks og Bolungavíkur og þar unnu TR krakkarnir á öllum borðum! Í 3. umferð tefldi A-liðið við Hróka alls fagnaðar, b-lið. Þar var stigamunurinn aftur 300-600. Okkar fólk tapaði þar á öllum borðum. Í 4. umferð mættust bæði unglingalið TR! Svo fór að A-liðið fór með sigur að hólmi, 5:1, en á 2. borði hafði Ingvar Wu betur gegn Batel.

Eftir fyrri hlutann er A-liðið með 12 vinninga og í 10. sæti af 18. Þess má geta að liðið sem er í 4. sæti hefur einungis tveimur vinningum meira!

20171022_110058

TR – unglingasveit B

Liðsmenn: Alexander Björnsson (einnig í A), Einar Tryggvi Petersen (einnig í A), Ingvar Wu Skarphéðinsson, Iðunn Helgadóttir, Bjartur Þórisson, Gabríel Sær Bjarnþórsson, Tristan Theódór Thoroddsen, Ásthildur Helgadóttir, Anna Katarina Thoroddsen, Elsa Kristín Arnaldardóttir, Katrín María Jónsdóttir, Jósef Omarsson.

Í 1. umferð tefldi B-sveitin við UMSB, sem var stigahærri á öllum borðum og var munurinn 350-750 stig. Krakkarnir gerðu sitt besta á föstudagskvöldi, en það var við ofurefli að etja í þessari 1. umferð og B-liðið okkar tapaði 6:0. Í 2. umferð tefldi B-lið TR við Skákfélagið Huginn, unglingalið A. Góður sigur TR krakkanna á A-liði Hugins, en viðureignin vannst með 3,5:2,5 vinningum. Einar Tryggvi vann á 2. borði, Ásthildur vann á 5. borði og Katrín María á 6. borði. Gabríel Sær gerði jafntefli á 4. borði, en Ingvar og Bjartur töpuðu sínum skákum á 1. og 3. borði. Í 3. umferð tefldi B-liðið við Skákfélag vina Laugalækjarskóla. Skákirnar á borði 1.- 4. borði töpuðust, en á 5.- 6. borði mættu andstæðingarnir ekki, þannig að tveir vinningar fengust úr þessari viðureign, 2:4. Sem fyrr sagði mættust svo báðar barnasveitir TR í 4. umferð með sigri A-liðsins 5:1.

Eftir fyrri hlutann er því B-lið TR með 6,5 vinning og í 16. sæti af 18 fyrir ofan Skákdeild Fjölnis unglingalið A sveit og Skákfélagið Huginn unglingalið A sveit. Ljóst er, að það er við ramman reip að draga fyrir bæði barnalið TR í 4. deildinni. En krakkarnir taka þessu með yfirvegun og gera sitt besta.

20171022_110108

Bæði liðin eru mjög vel skipuð og krakkarnir sýna af sér góðan þokka við skákborðið og utan þess, svo eftir er tekið. Svo eru þau gallhörð í skákinni! Ástæða þykir að þakka foreldrum þessara barna sérstaklega fyrir góða samvinnu þessa miklu skákhelgi!