Rimaskóli & Ölduselsskóli Reykjavíkurmeistarar grunnskólaStúlknasveit Rimaskóla kom fyrst í mark í keppni 1.-3. bekkja á Reykjavíkurmóti grunnskóla og sigraði því í opnum flokki og stúlknaflokki. Í keppni 4.-7. bekkja sigraði A-sveit Rimaskóla í opnum flokki og Rimaskóli var einnig með efstu stúlknasveitina. Í keppni 8.-10. bekkja sigraði Ölduselsskóli en engin stúlknasveit tók þátt.

1.-3. bekkir að stöfrum í Reykjavíkurmóti grunnskólasveita.

1.-3. bekkingjar að störfum í Reykjavíkurmóti grunnskólasveita.

Mótið fór fram í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur mánudaginn 3. febrúar og þriðjudaginn 4. febrúar en TR heldur mótið í samstarfi við Skóla- og frístundasvið. Þetta er þriðja árið í röð þar sem mótinu er skipt í þrennt, þ.e. 1.-3. bekkur, 4.-7. bekkur og 8.-10. bekkur, en fyrirkomulagið hefur reynst vel. Mikil aukning hefur verið í þátttöku undanfarið en í ár tók þátt 51 sveit samanborið við 32 sveitir í fyrra, 36 sveitir 2018 og 28 sveitir 2017, síðasta árið sem teflt var í einum flokki 1.-10. bekkja. Fjöldi sveita hefur því nánast tvöfaldast á umræddu tímabili. Lítum eilítið betur á sjálft mótahaldið.

1.-3. bekkur
Blásið var til leiks á mánudag kl. 16.30 þegar 17 sveitir skipaðar yngstu börnunum settust við skákborðin köflóttu. Þátttaka í þessum flokki var 70% meiri en í fyrra. Hart var barist og spennan mikil en stór hluti keppendanna í þessum flokki er að stíga sín fyrstu skref í skákmótum og gaman var að sjá einbeitinguna og gleðina skína af þessum framtíðar skákdrengjum- og stúlkum. Það var skákað og það var mátað, það var pattað og það var fórnað. En að lokum gengu allir sáttir frá borðum eftir sigra og ósigra dagsins, fullir af baráttuanda eftir að hafa upplifað átök skáklistarinnar þetta stundarkorn úr degi. Svo fór að hin óárennilega stúlknasveit Rimaskóla kom fyrst í mark með 19 vinninga, hálfum vinningi meira en A-sveitir Háteigsskóla og Langholtsskóla sem urðu í 2.-3. sæti með 18,5 vinning en Háteigsskóli hlaut 2. sætið á oddastigum.

1.-3. bekkur. 1. sæti Stúlknasveit Rimaskóla

1.-3. bekkur: 1. sæti Stúlknasveit Rimaskóla

1.-3. bekkur: 2. sæti Háteigsskóli

1.-3. bekkur: 2. sæti Háteigsskóli

1.-3. bekkur: 3. sæti Langholtsskóli

1.-3. bekkur: 3. sæti Langholtsskóli

4.-7. bekkur
Á þriðjudeginum hófust leikar einnig kl. 16.30 og nú var það vaskur hópur 4.-7. bekkinga sem gekk í salinn fullur eftirvæntingar. Hvorki fleiri né færri en 25 sveitir mættu til leiks sem er hátt í 80% aukning frá síðasta ári – sannarlega góð tíðindi! Þessi hópur býr að töluvert meiri reynslu en sá yngsti og því gekk mótið afar vel fyrir sig þrátt fyrir mikinn fjölda. Líkt og í keppni dagsins áður var spennan mikil og réðust úrslit ekki fyrr en á lokametrunum og var það títtnefndur Rimaskóli sem stóð uppi sem sigurvegari en A-sveit skólans hlaut 20 vinninga á toppnum. Í öðru sæti með 19,5 vinning var A-sveit Landakotsskóla og í þriðja sæti með 19 vinninga A-sveit Háteigsskóla. Jafnara verður það varla! Efst stúlknasveita var sveit Rimaskóla sem hlaut 15,5 vinning.

4.-7. bekkur: 1. sæti Rimaskóli

4.-7. bekkur: 1. sæti Rimaskóli

4.-7. bekkur: 2. sæti Landakotsskóli

4.-7. bekkur: 2. sæti Landakotsskóli

4.-7. bekkur: 3. sæti Háteigsskóli

4.-7. bekkur: 3. sæti Háteigsskóli

4.-7. bekkur: Stúlknaverðlaun Rimaskóli

4.-7. bekkur: Stúlknaverðlaun Rimaskóli

8.-10. bekkur
Lokahnykkurinn á góðu móti hófst á þriðjudagskvöld kl. 19.30 þegar táningar 8.-10. bekkja mættu til leiks öllu vanir og létu fátt koma sér úr jafnvægi. 9 sveitir tóku þátt sem er svipað og í fyrra en það er helst í þessum flokki sem reynst hefur snúið að fjölga sveitum. Baráttan var hörð og nokkuð jöfn en þó hafði sveit Ölduselsskóla nokkra yfirburði og kom að lokum fyrst í mark með 23 vinninga. Hlíðaskóli varð í 2. sæti með 20,5 vinning og 3. sætið kom í hlut Laugalækjarskóla sem hlaut 19,5 vinning. Allar eiga þessar sveitir það sameiginlegt að hafa þaulreynda skákmenn innan sinna raða.

8.-10. bekkur: 1. sæti Ölduselsskóli

8.-10. bekkur: 1. sæti Ölduselsskóli

8.-10. bekkur: 1. sæti Hlíðaskóli

8.-10. bekkur: 2. sæti Hlíðaskóli

8.-10. bekkur: 3. sæti Laugalækjarskóli

8.-10. bekkur: 3. sæti Laugalækjarskóli

Taflfélag Reykjavíkur og Skóla- og frístundasvið þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og óska verðlaunahöfum til hamingju. Skákstjórn var í höndum Ríkharðs Sveinssonar, Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur, Jon Olav Fivelstad og Þóris Benediktssonar en þau nutu dyggrar aðstoðar margra liðsstjóra á staðnum og vilja þau koma á framfæri þakklæti til þeirra. Þá verður ekki of oft minnst á þátt þeirra hjóna, Birnu Halldórsdóttur og Ólafs S. Ásgrímssonar, í starfi félagsins en þau stóðu vaktina í veitingasölu allt mótið og sáu til þess að orkubirgðir keppenda og annarra voru nægar því úrvalið í Birnu-kaffi er ekki af verri endanum.

Sjáumst að ári!

Heildarúrslit má sjá á Chess-Results og myndir frá mótinu eru í albúminu hér að neðan.