Fjörlega teflt í 4. umferð Wow air mótsins!



Í gærkvöld fór fram fjórða umferð í Wow air vormóti Taflfélags Reykjavíkur. Afar hart var barist á öllum borðum í A flokki.  Sannkölluð háspenna var á fyrsta borði þar sem Sigurður Daði Sigfússon og Hannes Hlífar Stefánsson sættust á endanum á skiptan hlut.

wow15_r4 (6)

Þar varðist Sigurður Daði afar vel í flókinni stöðu og miklu tímahraki.  Var hann ítrekað kominn niður á seinustu sekúndu þegar að hann lék!

wow15_r4 (5)

Davíð Kjartansson stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Einari Hjalta Jenssyni sem fann ekki svar við öflugri mátssókn hótelstjórans geðþekka.

wow15_r4 (4)

Mikið tímahrak og spenna einkenndi skák Nakamura banans Ingvars Þórs Jóhannessonar og nýjasta hnakkans okkar Dags Ragnarssonar.  Ingvar lenti í miklu tímahraki fyrir tímamörkin og þurfti þá að verjast vænlegri kóngssókn Dags.  Hann reyndist vandanum vaxinn og þegar sóknin rann út í sandinn réðu öflug frípeð hans úrslitum.  Mjög skemmtileg skák.

Á fjórða borði vann Bragi Þorfinnsson skák sína gegn Örn Leó Jóhannessyni nokkuð sannfærandi.

Líkt og í annari umferð gegn Hrafni Loftssyni komst Þorvarður Fannar Ólafsson út í hróksendatafl peði yfir, nú gegn Jóni Trausta Harðarssyni en það dugði ekki til sigurs frekar en gegn Hrafni.

wow15_r4 (3)

Björgvin Víglundsson tefldi afar frísklega gegn Oliver Aron Jóhannessyni, fórnaði peði fyrir mikið spil.  Virtist staða hans afar vænleg á tímabili.  En Oliver er enginn aukvisi í spilinu, varðist fimlega og snéri vörn í sókn og sigraði.

Á sjöunda borði sættust Hrafn Loftsson og Jóhann Ingvason á skiptan hlut.

Eftir fjórar umferðir er Hannes Hlífar efstur með 3.5 vinninga en næstir koma Davíð Kjartansson og Sigurður Daði Sigfússon með 3 vinninga.

wow15_r4 (1)

Í B flokki varð jafntefli á þremur efstu borðunum.   Halldór Pálsson virtist nálægt sigri í skák sinni gegn Sverri Erni Björnssyni sem varðist þó vel og uppskar hálfan vinning.  Hallgerður Helga bjargaði jafntefli á stórglæsilegan hátt gegn Vigni Vatnar Stefánssyni.  Stubburinn var með kolunnið tafl þegar hann féll í patt gildru landsliðskonunnar.

Tvíburarbræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir þrátefldu í miðtaflinu og virtust báðir býsna sáttir með þau málalok.

wow15_r4 (2)

Stefán Bergsson heldur áfram að tefla fyrir augað, fórnaði peði snemma gegn Birki Kar Sigurðssyni fyrir fremur óljósar bætur en náði að flækja taflið.  Það virðist ávísun á öruggan sigur Stefáns fái hann hartnær tapað tafl því hann snéri á pilt og sigraði örugglega.

Gauti Páll Jónsson ákvað að leika af sér biskup fyrir engar bætur gegn Jóhanni Óla Eiðssyni sem brá þó á það ráð að hirða ekki biskupinn heldur gefa tvö peð í staðinn og tapa örugglega.  Skák hinna glötuðu tækifæra!

Engin breyting varð því á toppnum í B flokki.  Halldór og Sverrir leiða með 3 vinninga af fjórum.  Næstir þeim koma svo Bárður Örn og Vignir Vatnar með 2.5 vinninga.

Það verður stórviðureign í fimmtu umferð Wow air mótsins en þá mætast tveir stigahæstu menn mótsins, Hannes Hlífar og Bragi Þorfinnsson.  Oliver Aron mætir Davíð meðan Einar Hjalti teflir við Þorvarð Fannar.

Í B flokki mætast Sverrir og Bárður Örn, meðan Vignir Vatnar teflir við Halldór Pálsson.

5. umferð fer fram næstkomandi mánudag.

Nánari upplýsingar um stöðu og pörun hér