Fátt óvænt í 2. umferð Wow-air mótsins



wowair_tr_banner1_2015

Önnur umferð Wow air vormóts TR fór fram síðastliðið mánudagskvöld. Úrslit í A flokki voru að mestu eftir bókinni góðu. Stórmeistarinn Hannes Hlífar sigraði Björgvin Víglundsson örugglega meðan Davíð Kjartansson sigraði Dag Ragnarsson í uppgjöri “FM hnakkanna”.

wow_2015_r2-1

Það var þriðja tapskák Dags í röð, en hann hafði áður tapað óvænt tveimur skákum í áskorendaflokk Íslandsmótsins.

wow_2015_r2-20

Á þriðja borði gerðu síðan alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson og frægasti FM Íslands Ingvar Þór Jóhannesson jafntefli.

Hannes og Davíð eru efstir með fullt hús og mætast einmitt í þriðju umferð.

wow_2015_r2-2

Í B flokki gerðu Vignir Vatnar Stefánsson og Sverrir Örn Björnsson jafntefli á fyrsta borði og sömuleiðis Birkir Karl Sigurðsson og Halldór Pálsson á öðru borði. Menn umferðarinnar voru þó tvímælalaust tvíburabræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir.

wow_2015_r2-10

Bárður Örn sigraði Stefán Bergsson örugglega með svörtu og það sama gerði Björn Hólm í viðureign sinni við Gauta Pál Jónsson.

Landsliðskonan Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir sigraði síðan Jóhann Óla Eiðsson í frestaðri skák sem fram fór í gærkvöldi.

wow_2015_r2-9

Sex keppendur hafa einn og hálfan vinning eftir tvær umferðir og ljóst að hart verður barist í þriðju umferð. Þá mætast m.a. Sverrir Örn og Birkir Karl meðan Bárður Örn teflir við Vignir Vatnar. Athyglisverð viðureign verður svo á botninum en þar mætast Gauti Páll og Stefán en báðir eru þeir “páskaeggjaðir” eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Þriðja umferð Wow air mótsins fer fram mánudagskvöldið 13. apríl.

Staða og pörun hér

Skákir annarar umferðar má finna hér

Myndir frá mótinu má finna hér