Evrópumót félagsliða hefst í næstu viku



Á þessu ári eru 20 ár liðin frá því T.R. sendi fyrst sveit á Evrópumót félagsliða. T.R. sendir að sjálfsögðu lið til keppni þetta árið, en mótið fer fram í Tyrklandi.

Á síðasta ári, þegar mótið fór fram í Austurríki, lenti T.R. í 5.-12. sæti, sem hlýtur að teljast einn besti árangur íslensks félagsliðs á Evrópumóti, en á toppnum með T.R.ingum voru sveitir sem nær undantekningalaust voru aðeins skipaðar sterkum stórmeisturum. T.R. sigraði þá 5 viðureignir og tapaði tveimur. Á mótinu náði Stefán Kristjánsson sínum þriðja og síðasta áfanga að stórmeistaratitli.

 

Besti árangur T.R, og jafnframt besti árangur íslensks liðs í Evrópukeppninni í skák, var að komast í undanúrslit, þar sem félagið féll út með jöfnum vinningum.

Sjá stutta umræðu um þátttöku T.R. í Evrópukeppninni hér., en myndin hér að ofan er tekin í Evrópuferð T.R. liðsins í Ungverjalandi fyrir nær 20 árum. Meðal liðsmanna T.R. í “gamla daga” voru tveir þeirra, sem nú tefla fyrir T.R., þeir Hannes Hlífar Stefánsson og Þröstur Þórhallsson.

Að þessu sinni sendir T.R. sterkt lið til keppni, en það er skipað eftirtöldum leikmönnum:

1. SM Hannes Hlífar Stefánsson
2. SM Igor Alexandre Nataf
3. SM Þröstur Þórhallsson
4. AM Stefán Kristjánsson
5. AM Arnar E. Gunnarsson
6. AM Jón V. Gunnarsson
1v FM Snorri G. Bergsson (fyrirliði)

Mörg ofursterk lið eru skráð til leiks, en m.a. má finna þar nokkur, þar sem meðalstig sex efstu keppenda eru yfir 2700. Meðal keppenda verða Anand, sem nú er nánast öruggur með að tryggja sér heimsmeistaratitilinn, fyrrv. heimsmeistari Topalov og margir fleiri.

T.R. stefna engu að síður ótrauðir á, að ná fjórða sætinu, einir eða skiptu, en félagið er, eins og er, í 19. sæti á styrkleikalista tæplega 60 sveita.

Taflfélagið Hellir sendir jafnframt sveit til keppni og verða Hellisbúar um það bil í 40 sæti í styrkleikaröðuninni.