Einvígi Einars og Braga á Haustmótinu



IMG_7508

Alþjóðlegu meistararnir Einar Hjalti Jensson og Bragi Þorfinnsson eru í nokkrum sérflokki á Haustmóti TR en þeir eru efstir og jafnir með 6,5 vinning þegar ein umferð er ótefld.  Nokkra athygli vekur að Björgvin Víglundsson er þriðji með 4,5 vinning en hann hefur nú snúið aftur að taflborðinu eftir langt hlé.  Þess ber þó að geta að staðan getur enn breyst nokkuð þar sem enn á eftir að tefla tvær frestaðar viðureignir, annarsvegar á milli alþjóðlega meistarans Sævars Bjarnasonar og Olivers Arons Jóhannessonar og hinsvegar Olivers og Arnar Leós Jóhannssonar.  Í næstsíðustu umferð sem fór fram í gær sigraði Bragi stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu, en Einar hafði betur gegn Oliver.

IMG_7516

Í B-flokki sigraði Guðlaug Þorsteinsdóttir Hörð Aron Hauksson og tryggði sér þar með sigur í flokknum og sæti í A-flokki að ári.  Guðlaug hefur átt mjög gott mót og að loknum átta umferðum er hún með 7 vinninga, 1,5 vinningi meira en Agnar Tómas Möller og Vignir Vatnar Stefánsson sem koma næstir með 5,5 vinning.  Ólíkt umferðunum tveimur á undan lauk aðeins einni viðureign með skiptum hlut en hún var á milli Agnars og Bárðar Arnar Birkissonar.  Vignir sigraði hinsvegar Snorra Þór Sigurðsson.

IMG_7506

Gauti Páll Jónsson hefur algjöra yfirburði í C-flokknum og hefur tryggt sér glæsilegan sigur en hann hefur fullt hús vinninga eftir að hafa lagt Hörð Jónasson að velli í áttundu umferð.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir er önnur með 5,5 vinninga en hún beið lægri hlut gegn Ólafi Guðmarssyni.  Aron Þór Mai hefur átt mjög gott mót og er sem stendur í þriðja sæti með 4,5 vinning en hann á inni frestaða skák gegn Héðni Briem.

IMG_7519

Í opna flokknum heldur Arnar Milutin Heiðarsson áfram góðu gengi en hann lagði Jón Þór Lemery með laglegri fléttu.  Arnar hefur 6,5 vinning en næstur kemur Alexander Olvier Mai með 5,5 vinning og síðan fylgja fimm keppendur með 5 vinninga.

Níunda og lokaumferðin fer fram á föstudagskvöld og hefst hún kl. 19.30.