Björgvin efstur á Öðlingamótinu



IMG_9060

Hún var hörð baráttan í þriðju umferð Skákmóts öðlinga sem fram fór í gærkveld en þegar klukkan nálgaðist 23. stund sólarhringsins var enn stærstur hluti bardaganna í gangi. Á efsta borði mættust hinir reynslumiklu jaxlar, Ögmundur Kristinsson (2015) og Gunnar K. Gunnarsson (2115), í hörkuskák þar sem Gunnar virtist vera að fá nokkuð vænlega stöðu. Úr varð mikil spenna og eftir allnokkrar tilfæringar manna á hinu köflótta borði var liðskipan þannig að Ögmundur hafði tvo hróka gegn hæstvirtri drottningu Gunnars auk þess sem hvor keppandi hafði yfir nokkrum peðum að ráða. Eftir það reyndist höfðingjunum ómögulegt að bæta stöður sínar svo nokkru næmi og voru sverð því slíðruð síðla kvölds. Skiptur hlutur niðurstaðan.

IMG_9231

Sömu sögu má segja um viðureign Þórs Valtýssonar (1962) og Siguringa Sigurjónssonar (2021) á öðru borði. Eftir harða rimmu var samið jafntefli þegar út í hnífjafnt endatafl var komið. Raunar lauk fimm orrustum af sjö á efstu borðum með jafntefli en það voru aðeins Fide-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson (2377) og Björgvin Víglundsson (2185) sem höfðu betur gegn sínum andstæðingum; Ingvar gegn Kristni Jóni Sævaldssyni (1934) og Björgvin gegn Magnúsi Matthíassyni (1694).

IMG_9233

Staðan er nú þannig að áðurnefndur Björgvin er efstur með fullt hús vinninga en fimm keppendur koma í humátt með 2,5 vinning. Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá verður stórviðureign á fyrsta borði þar sem Björgvin stýrir hvítu mönnunum gegn Ingvari. Einnig mætast m.a. höfðingjarnir Gunnar og Þór og Siguringi etur kappi við Ögmund.