Arnar Gunnarsson sigraði á Atskákmóti Reykjavíkur



Alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson.

Alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson.

Keppni í atskák ruddi sér til rúms í lok níunda áratugs síðustu aldar og upphafi þess tíunda. Atskákmót Íslands var fyrst haldið 1988 og fjórum árum síðar, 1992, var Atskákmóti Reykjavíkur hleypt af stokkunum. Keppnisfyrirkomulagið þótti henta vel til sjónvarpsútsendinga enda réðust úrslit mótanna oft með einvígjum í sjónvarpssal. Minnisstæð eru einvígi þar sem þjóðkunnir sjónvarpsmenn eins og Hermann Gunnarsson og Bjarni Felixson lýstu hamagangi ásamt okkar kunnustu stórmeisturum.

Atskákmót Reykjavíkur var fyrst haldið af Taflfélagi Reykjavíkur 1992 og næstu árin þar á eftir. Greinarhöfundi er ekki fullkunnugt um afdrif mótsins en mótshaldið dalaði töluvert og féll keppni niður einhver ár. Á tímabili var mótshaldinu skipt á milli félaganna í Reykjavík, T.R. og Hellis/Hugins. Undanfarin ár hefur mótið verið haldið af Skákfélaginu Huginn en í ár fluttist mótshaldið yfir til T.R.

Atskákmót Reykjavíkur var vel sótt.

Atskákmót Reykjavíkur var vel sótt.

Ákveðið var að reyna að blása lífi í þáttttökuna og var mótinu fundin tímasetning í byrjun desember. Teflt skyldi á tveimur kvöldum, níu umferðir. Skákmenn tóku þessu mjög vel og var þátttakan ein sú allra besta í áratugaskeið, eða 44 keppendur. Góð blanda af eldri og yngri skákmönnum skráðu sig ti lleiks og níu skákmenn með yfir 2000 atskákstig. 

Skemmst er frá því að segja að stigahæsti keppandinn, alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson, bar sigur úr býtum eftir harða keppni. Hann hlaut 7½ vinning úr níu skákum.  Fast á hæla hans var annar alþjóðlegur meistari með 7 vinninga, Davíð Kjartansson. Jafnir í 3-5. sæti voru síðan Símon Þórhallsson, Þorvarður Fannar Ólafsson og gamla kempan Bragi Halldórsson með 6½ vinning.

Úrslit mótsins má sjá hér.

Skákstjóri var Ríkharður Sveinsson, alþjóðlegur skákdómari.