Allt að gerast í opna flokknum í annarri umferð Haustmótsins



Í annarri umferð Haustmótsins unnu þeir stigahærri þá stigalægri í A-floknum að undanskildum sigri Baldurs Kristinssonar (2249) gegn Daða Ómarssyni (2279) og reyndar eru ekki mörg stig sem skilja þá að. Daði vann hins vegar Braga Þorfinsson (2449) í frestaðri skák sem tefld var síðastliðinn fimmtudag. Önnur úrslit urðu þau að Hjörvar vann Vigni, Bragi vann Stefán Bergsson og Guðmundur Kjartansson vann Alexander Oliver. Eftir tvær umferðir eru þeir Hjörvar Steinn og Guðmundur efstir með fullt hús, tvo vinninga af tveimur. Í þriðju umferð verður stórmeistaraslagur, en þá mætast Bragi og Hjörvar, en úrslit þeirrar skákar geta reynst mikilvæg í lok móts. Einnig mætast þá unglingarnir í flokknum, þeir Alexander Mai og Vignir Vatnar. Úrslit

Þrjár skákir voru tefldar í B-flokki en skák Lenku og Sævars varð frestað. Svo fór að Símon vann Gauta Pál, Mikael Jóhann vann Harald Haraldsson í miklum Akureyrarslag og Guðni Stefán vann Aron Mai. Í B-flokknum eru þeir Símon og Guðni með fullt hús vinninga. Úrslit

Í C-flokki voru úrslitin eftir bókinni góðu fyrir utan að Arnar Heiðarsson (1756) vann Jóhann Ragnarsson (1943). Önnur úrslit voru þau að Pétur Pálmi vann Jóhann Arnar, Aasef vann Gunnar Erik og Benedikt Briem vann Helga Pétur. Sama þema kemur upp í C-flokknum eftir tvær umferðir eins og í hinum flokkunum, tveir eru efstir með tvo vinninga. Í C-flokknum eru það þeir Pétur Pálmi Harðarson og Aasef Alashtar sem eru með fullt hús, en þeir mætast í þarnæstu umferð, næstkomandi miðvikudagskvöld. Úrslit

Talsvert var um óvænt úrslit í opna flokknum í annarri umerð, sem kemur kannski ekki mikið á óvart enda mikið um upprennadi skákmenn þar. Það væri í raun saga til næsta bæjar ef engin væri “óvæntu” úrslitin. En hvað um það. Árni Ólafsson (1347) lagði Halldór Kristjánsson (1558) af velli á fyrsta borði. Ingvar Wu Skarphéðinsson (1322) heldur áfram að standa sig vel og vann Óttar Örn Bergmann Sigfússon (1471) og að lokum má nefna að Bjartur Þórisson (1064) vann Hjálmar Sigurvaldason (1459). Eftir tvær umferðir eru fimm efstir með tvo vinninga í opna flokknum; Þorsteinn Magnússon, Ingvar Wu, Sigurður J. Sigurðsson, Arnar Ingi Njarðarson og Árni Ólafsson. Úrslit

Þriðja umferð verður tefld nú í kvöld, föstudaginn 13. september. Þar sem pistlahöfundur vill ekki vera fyrirsjánlegur þegar kemur að gríni, glensi, eða spaugi nokkurskonar, mun hann sleppa því að gera grín að óheppnisdagsetningunni frægu. Taflið hefst stundvíslega klukkan 19:30 í húsakynum TR í Faxafeni 12 og eru áhorfendur hjartanlega velkomnir.