Að loknu Skákþingi Reykjavíkur 2015



Einn er sá punktur í tilveru íslenskra skákmanna sem hægt er að ganga að vísum. Í janúar ár hvert er haldið eitt af stóru mótum skákvertíðarinnar; Skákþing Reykjavíkur. Skákþingið í ár var hið 84. í röðinni og að þessu sinni var mótið haldið til heiðurs Friðriki Ólafssyni, sem fagnaði áttræðisafmæli sínu einmitt í þessum sama mánuði. Friðrik hefur alið manninn hjá Taflfélagi Reykjavíkur allan sinn glæsta skákferil. Er Friðrik leit fósturjörð sína augum í fyrsta sinn árið 1935 var Baldur Möller í þann mund að verða Skákmeistari Reykjavíkur, sá fjórði í röðinni.

Skákþing Reykjavíkur var fyrst haldið árið 1932. Fyrsti Skákmeistari Reykjavíkur var þáverandi Íslandsmeistari, hinn eðliskurteisi heiðursmaður Ásmundur Ásgeirsson, svo notuð séu orð Baldurs Möller í minningargrein um Ásmund. Ásmundur átti eftir að endurtaka leikinn í tvígang. Baldur Möller sem er einn af sigursælustu skákgörpum Íslands öðlaðist nafnbótina Skákmeistari Reykjavíkur alls fjórum sinnum. Friðrik Ólafsson varð Skákmeistari Reykjavíkur í fyrsta sinn árið 1960, aftur árið 1963 og loks í þriðja og síðasta sinn árið 1975. Ljóst er að Friðrik hefði getað unnið Skákþingið mun oftar á sínum langa og glæsilega skákferli, en slíkur var skákstyrkur hans að farsælla var að beina athyglinni yfir hafið hvar hann gat sest við taflborð gegnt fremstu skákmönnum heims. Sigursælasti Skákmeistari Reykjavíkur frá upphafi er hinn síkáti fasteignasali og stórmeistari, Þröstur Þórhallsson. Þröstur hefur unnið mótið sjö sinnum, fyrst árið 1987 en síðast árið 2000. Ingi R. Jóhannsson átti einnig góðu gengi að fagna á Skákþinginu um miðbik síðustu aldar, en hann vann mótið alls sex sinnum á einungis átta árum. Ingi R. er jafnframt sá eini sem lánast hefur að vinna mótið þrjú ár í röð.

Nýafstaðið Skákþing Reykjavíkur var glæsilegt í alla staði og gildir þá einu hvort litið er til umgjarðar, fjörlegrar taflmennsku, hás spennustigs, uppgangs ungra skákmanna, áhorfendafjölda eða gómsætra veitinga á kaffistofunni hennar Birnu. Mótinu var stjórnað af fádæma öryggi og greiddu röggsamir skákstjórar fumlaust úr öllum flækjum sem upp komu. Með skákstjórn fóru Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Björn Jónsson, Ríkharður Sveinsson og Ólafur Ásgrímsson. Alls tóku 67 vaskir skákmenn þátt í Skákþinginu að þessu sinni. Stórmeistarinn og KR-ingurinn vörpulegi Stefán Kristjánsson (2492) fór fyrir vaskri sveit sex titilhafa. Fjórir alþjóðlegir meistarar mættu til leiks gráir fyrir járnum; Jón Viktor Gunnarsson (2433) átti titil að verja eftir hraustlega framgöngu sína í mótinu árið 2014, athafnamaðurinn Björn Þorfinnsson (2373) eygði von um sinn fyrsta sigur síðan 2012, hinn hægláti og yfirvegaði sjentilmaður Dagur Arngrímsson (2368) mætti glorsoltinn til leiks því hann hefur ekki enn getað sett sigur í þessu móti á sína annars flottu ferilskrá, og loks gamla brýnið Sævar Bjarnason (2114) sem síðast vann Skákþingið árið 1994 -fyrir 21 ári. Er þá enn ótalinn Fídemeistarinn og lífskúnstnerinn að vestan, Guðmundur Gíslason (2315), sem setti ekki fyrir sig að vera búsettur ríflega 400 kílómetra akstursleið frá mótsstað. Í hverri viku reimdi Guðmundur á sig ferðaskóna og brá sér í höfuðstaðinn til þess að grípa í tafl. Er vandfundin meiri ástríða fyrir töfrum skáklistarinnar, og þó víða væri leitað. Guðmundur á það sammerkt við ekki ómerkari menn en fyrrum Íslandsmeistarana Friðrik Ólafsson og Björn Þorsteinsson að hafa unnið Skákþing Reykjavíkur með fullu húsi. Þetta stórkostlega afrek vann Guðmundur árið 1993 er hann lagði alla ellefu andstæðinga sína. Vegna búsetu sinnar gat Guðmundur þó ekki orðið Skákmeistari Reykjavíkur það árið. Það skyggir þó ekki á nokkurn hátt á þessa mögnuðu framgöngu Guðmundar, og verður hún lengi í minnum höfð.

Skákþingið fór nokkuð rólega af stað að þessu sinni. Lítið var um óvænt úrslit til að byrja með, þó sýndu ungir og efnilegir skákmenn góða takta inn á milli. Þessi rólega byrjun var þó einungis lognið á undan storminum. Fjör færðist heldur betur í leikinn í 3.umferð. Þá stóðu efstu borð í ljósum logum og blóðugir bardagar voru háðir víða í skáksalnum. Alls lágu þrír titilhafar í valnum og einn varð að gera sér að góðu jafntefli. TR-ingurinn Þorvarður Fannar Ólafsson (2245) lagði Stefán Kristjánsson (2492), Rimaskólaundrið Oliver Aron Jóhannesson (2170) vann sjálfan Skákmeistara Reykjavíkur Jón Viktor Gunnarsson (2433), Sævar Bjarnason (2114) sigraði Björn Þorfinnsson (2373) og Dagur Arngrímsson (2368) varð að sætta sig við jafntefli við nafna sinn Dag Ragnarsson (2059). Þá vann Örn Leó Jóhannsson (2048) góðan sigur á byrjanaprófessornum Daða Ómarssyni (2256). Elstu menn muna vart annað eins blóðbað á efstu borðum í einni umferð í skákmóti. Að lokinni 3.umferð voru vísbendingar á lofti um að enginn einn skákmaður myndi stinga af í mótinu. Um leið opnuðust möguleikar fyrir stigalægri skákmenn til að blanda sér í toppbaráttuna. Þeir áttu nokkrir eftir að nýta sér það.

Titilhafarnir bitu flestir í skjaldarrendur í næstu umferð og unnu sínar skákir, en Björn Þorfinnsson (2373) varð þó að gera sér að góðu jafntefli gegn barnalækninum sókndjarfa Ólafi Gísla Jónssyni (1871). Björn átti því nokkuð í land með að ná efstu mönnum og varð að gjöra svo vel að girða sig í brók ætlaði hann sér að eygja von um sigur í mótinu. Líkt og skákheimur þekkir þá er Björn ekki vanur að leggjast í fósturstellinguna þó framundan sé brött brekka. Björn mætti því vel girtur í næstu umferðir, vann fjórar skákir í röð, og saxaði hratt en örugglega á forystusauðina. Á sama tíma sýndu Stefán Kristjánsson (2492) og Jón Viktor Gunnarsson (2433) klærnar og unnu líka fjórar skákir í röð.

Að lokinni sjöundu umferð fóru línur að skýrast. Þá voru Stefán og Jón Viktor efstir með 6 vinninga en næstir á blaði voru Dagur Ragnarsson (2059), Mikael Jóhann Karlsson (2077) og Björn Þorfinnsson (2373) með 5,5 vinning. Er hér var komið við sögu hafði Dagur Arngrímsson helst úr lestinni eftir töp gegn Stefáni og Birni, og Guðmundur Gíslason (2315) var heilum vinningi á eftir efstu mönnum eftir töp gegn Jóni Viktori og Degi Arngrímssyni. Eftirtektarvert var að ungu piltarnir, Oliver Aron Jóhannesson (2170), Dagur Ragnarsson (2059), Mikael Jóhann Karlsson (2077) og Jón Trausti Harðarson (2067), gáfu ekki þumlung eftir gegn titilhöfunum og voru í hörku baráttu um sigur í mótinu.

Áttunda umferð hafði allt til þess að bera að verða æsispennandi. Þá mættust Jón Viktor Gunnarsson (2433) og Stefán Kristjánsson (2492) á 1.borði, Dagur Ragnarsson (2059) og Mikael Jóhann Karlsson (2077) tefldu á 2.borði og Björn Þorfinnsson (2373) mætti Oliver Aroni Jóhannessyni (2170) á 3.borði. Umferðin varð þó ekki eins spennandi og áhorfendur vonuðust til því friðarpípan var tendruð snemma tafls. Jón Viktor og Stefán sömdu um skiptan hlut í nánast ótefldri skák og jafntefli varð einnig hjá Degi Ragnarssyni og Mikael Jóhanni. Þetta nýtti Björn Þorfinnsson sér til hins ýtrasta. Hann lagði Oliver Aron í snarpri skák og komst upp að hlið þeirra Jóns Viktors og Stefáns á toppnum. Enn var því með öllu óljóst hvort þessi friðsama leikáætlun þeirra Jóns Viktors og Stefáns yrði þeim til gæfu eða böls. Framundan var æsispennandi 9.umferð þar sem sex skákmenn höfðu kost á að tryggja sér efsta sæti mótsins.

Á 1.borði í síðustu umferð stýrði Jón Viktor hvítu mönnunum gegn Birni Þorfinnssyni. Á 2.borði hafði Stefán svart gegn Mikael Jóhanni. Á 3.borði mættust Dagur Ragnarsson og Jón Trausti Harðarson. Á þessum þremur borðum tefldu þeir sex skákmenn sem enn áttu möguleika á sigri í mótinu. Sé litið til þess hve mikið var í húfi þá kom það spánskt fyrir sjónir þegar Grafarvogsgarparnir Dagur og Jón Trausti sömdu jafntefli eftir örfáa leiki. Mögulega skorti þá kjark til þess að berjast til sigurs, hugsanlega voru þeir hræddir við að tap í síðustu umferð myndi varpa skugga á frábæran árangur þeirra í mótinu. Engin getur svarað því nema þeir sjálfir. Þar með beindust allra augu að tveimur efstu borðunum. Jón Viktor færði hvítu mennina fagmannlega um taflborðið gegn Birni svo verulega sá á peðastöðu Björns. Á sama tíma varð Stefáni fótaskortur gegn Mikael sem kostaði hann peð og dýrmætar mínútur á klukkunni. Svo fór að lokum að Jón Viktor vann Björn og Mikael gerði sér lítið fyrir og lagði stórmeistarann Stefán. Þar með var ljóst að Jón Viktor hafði varið titil sinn frá síðasta ári. Jón Viktor Gunnarsson er Skákmeistari Reykjavíkur árið 2015.

Þó svo aðeins einn skákmaður geti borið titilinn Skákmeistari Reykjavíkur hverju sinni, þá voru fleiri sigurvegarar í Skákþinginu. Einkum yngri skákmenn sem margir hverjir blómstruðu svo eftir var tekið.

Mikael Jóhann Karlsson (2077) tefldi skínandi vel allt mótið. Mikael var þrettándi í stigaröðinni í upphafi móts og þótti veðbönkum hann ekki líklegur til þess að blanda sér í baráttu um sigur í mótinu. Mikael var á öðru máli. Hann fór sem hraustlegur norðanvindur upp töfluna, lagði hvern andstæðinginn á fætur öðrum og kórónaði frammistöðu sína með því að leggja stórmeistara að velli í síðustu umferð sem tryggði honum 2.sætið í mótinu. Frammistaða Mikaels samsvaraði 2408 skákstigum og hækkar hann um 64 skákstig. Sannarlega mögnuð framganga.

Rimaskólaþríeykið Dagur Ragnarsson (2059), Oliver Aron Jóhannesson (2170) og Jón Trausti Harðarson (2067) fóru mikinn í mótinu og hækka allir um tugi skákstiga. Dagur hækkar þó langmest þeirra félaga eða um alls 82 skákstig. Íslenskir skákáhugamenn ættu að fylgjast vel með þessu þríeyki á næstu misserum því þeir eru allir líklegir til afreka við taflborð.

Mai bræðurnir, Aron Þór og Alexander Oliver, áttu góðu gengi að fagna á mótinu og er dugnaður þeirra á skákæfingum Taflfélags Reykjavíkur að skila þeim auknum styrk við taflborðið. Frammistaða þeirra mældist 200-300 skákstigum hærri en skákstig þeirra segja til um. Með aukinni reynslu af kappskákmótum og áframhaldandi vinnusemi á skákæfingum þá eru bræðurnir líklegir til þess að ná langt í skáklistinni.

TR-ingurinn ungi Róbert Luu tefldi margar góðar skákir og fékk 4,5 vinning. Frammistaða hans mældist nærri 1600 skákstigum sem skilar honum 30 skákstigum í vasann. Róbert var hársbreidd frá því að hala inn fleiri vinninga því hann átti í fullu tré við þrjá 1900 stiga menn í spennandi skákum sem þó töpuðust að lokum. Róbert ber öll merki þess að vera að taka stórstígum framförum og þykir næsta víst að hann muni rjúfa 1400 stiga múrinn á þessu ári. Nú þegar Róbert er orðinn alvanur kappskákmaður og flestum íslenskum mótaskákmönnum kunnur fyrir sterka einbeitingu og baráttuþrek við taflborð, þá er athyglivert að velta upp þeirri staðreynd að pilturinn er einungis á tíunda aldursári! Hann á því svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Sé lokastaða Skákþingsins skoðuð nánar þá má leiða líkum að því að nokkurs konar kynslóðaskipti séu í burðarliðnum. Í fjórum af efstu níu sætunum eru ungir og upprennandi skákmeistarar sem eiga vafalítið eftir að láta mikið að sér kveða á næstu misserum. Þeir Oliver, Dagur, Jón Trausti og Mikael hafi allir burði til þess að vinna Skákþing Reykjavíkur innan örfárra ára. En til þess þurfa þeir að halda vel á spöðunum og leggja á sig mikla vinnu. Geri þeir það þá er framtíðin þeirra.

Þó svo árangur þessara ungu manna hafi verið sérlega glæsilegur þá eiga þeir enn nokkuð í land með að ná skákstyrk nýkrýnds Skákmeistara Reykjavíkur, Jóns Viktors Gunnarssonar. Jón Viktor hefur átt afar farsælan skákferil. Sigur hans á nýloknu Skákþinginu var hans sjötti í röðinni sem skipar honum á bekk með Inga R. Jóhannssyni, einum mótssigri frá meti Þrastar Þórhallssonar. Jón Viktor varð Íslandsmeistari í skák árið 2000 og var í sigurliði Íslands á Ólympíumóti 16 ára og yngri á Kanaríeyjum árið 1995. Jón Viktor varð alþjóðlegur meistari aðeins 17 ára gamall og hann á nú þegar að baki einn áfanga að stórmeistaratitli. Það leikur enginn vafi á því að Jón Viktor hefur alla burði til þess að verða stórmeistari í náinni framtíð. Það er óskandi að sigurinn á Skákþinginu færi honum byr í segl til þess að bretta upp ermar og takast á við stórmeistaratignina.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra keppenda og áhorfenda sem lögðu leið sína í félagsheimilið í Faxafeni og gerðu 84. Skákþing Reykjavíkur að þeim glæsilega viðburði sem raunin varð. Takk fyrir þessa ógleymanlegu skákveislu, og sjáumst að ári!

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur