Vorhátíð TR verður haldin næstkomandi laugardag þann 13.maí og hefst fjörið klukkan 14. Vorhátíðin er einskonar uppskeruhátíð allra þeirra barna sem mætt hafa á æfingar Taflfélags Reykjavíkur á þessari vorönn. Öllum börnum sem hafa sest að tafli á byrjendaæfingum, stúlknaæfingum, framhaldsæfingum, afreksæfingum eða á sjálfri Laugardagsæfingunni er velkomið að taka þátt í hátíðinni með okkur. Einnig öll þau börn sem teflt hafa fyrir hönd félagsins í Íslandsmóti unglingasveita og Íslandsmóti skákfélaga.
Á Vorhátíðinni teflum við 6 umferða mót með tímamörkunum 5 mínútur á skák auk 3 sekúndna sem bætast við eftir hvern leik (5+3). Verðlaunapeningar verða veittir fyrir 3 efstu sætin, 3 efstu stúlkur, 3 efstu af þeim sem eru fædd 2005 eða síðar og 3 efstu af þeim sem eru fædd 2008 eða síðar. Að auki verða veittar viðurkenningar fyrir góða ástundun á vorönninni.
Við hlökkum til að hitta ykkur öll og fagna saman vel heppnaðri vorönn!