Hraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur fór fram miðvikudagskvöldið 27.september og voru 26 vaskir skákmenn mættir í Skákhöllina til að takast á við skákgyðjuna. Tefldar voru 11 umferðir með tímamörkunum 4+2. Góð stemning var á meðal þátttakenda þar sem margir ungir og efnilegir skákmenn hittu fyrir eldri en ekkert síður efnilega skákmenn. Stigahæsti keppandinn –eini titilhafinn- vann mótið nokkuð örugglega og reynsluboltar af landsbyggðinni komust einnig á pall.
Vignir Vatnar Stefánsson kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að hröðum tilfærslum taflmanna á reitunum 64. Pilturinn lék við hvurn sinn fingur og þegar staðan á borðinu var ekki líkleg til að skila hagnaði þá beitti hann leifturhraða til að slá andstæðinga sína út af laginu. Þeir féllu í valinn hver á fætur öðrum allt þar til í 7.umferð er félagsmálafrömuðurinn að norðan, Stefán Bergsson, hélt ró sinni í æsispennandi endatafli og hafði sigur gegn Vigni Vatnari. Það varð norðanmanninum til happs að Vignir Vatnar missti af máti í 2 undir lokin og eru skákáhugamenn hvattir til þess að kynna sér þessi skemmtilegu tafllok á fésbókarsíðunni Íslenskir skákmenn (tímabundnir geta stokkið beint í mínútu 9:10). Þetta reyndist eina tapskák Vignis því hann vann allar hinar og lauk því keppni með 10 vinninga. TR-ingurinn knái vann ekki aðeins mótið heldur tryggði hann sér um leið nafnbótina Hraðskákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2017. Vignir Vatnar skipar sér þar með á bekk með snjöllum meisturum á borð við Friðrik Ólafsson og Guðmund Sigurjónsson.
Akureyringurinn beinskeytti Stefán Bergsson, sem í frístundum sínum selur skákvarning hvers konar, hlaut 9 vinninga og nægði það til silfurverðlauna. Stefán lagði báða félaga sína á verðlaunapallinum en varð að sætta sig við tvö jafntefli snemma móts, auk þess sem hann lét í minni pokann fyrir hinum bráðsnjalla knattspyrnumanni Stephani Briem.
Bronsverðlaunin komu í hlut hins eitilharða Magnúsar Pálma Örnólfssonar. Mikill völlur er á Bolvíkingnum um þessar mundir líkt og eftirtektarverð framganga hans í nýafstöðnu Haustmóti TR ber vott um. Magnús Pálmi vann átta skákir, gerði eitt jafntefli en beið lægri hlut fyrir bæði Vigni og Stefáni. Í skákinni gegn Stefáni varð Magnúsi Pálma það á að leika með báðum höndum en nýútkomnar skákreglur FIDE taka hart á því og ber skákstjóra að dæma tap í slíkum tilfellum. Þessi nýja regla alþjóða skáksambandsins FIDE er umdeild og mun vafalítið reynast mörgum skákmanninum erfið viðureignar. Engu að síður er óskandi að aðlögun íslenskra skákmanna gangi snurðulaust fyrir sig því töluverð ógleði fylgir því að tapa tafli vegna hinna nýju handalögmála. Hvað sem því líður þá nældi Magnús Pálmi sér í 8,5 vinning og virðist því vera kominn í áskrift þetta haustið að verðlaunapallinum í Skákhöllinni.
Í 4.-6. sæti með 6,5 vinning röðuðu sér reynsluboltarnir Ögmundur Kristinsson, Þór Valtýsson og Eiríkur K. Björnsson.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar þátttakendum fyrir spennandi og drengilega keppni og vonast til þess að sjá sem flesta aftur á einhverjum af þeim fjölmörgu skákmótum sem framundan eru í vetur.
Úrslit og lokastaða: Chess-Results