Vignir Vatnar enn óstöðvandi á 16. þriðjudagsmóti TR í gær



Ágæt þátttaka var á þriðjudagsmóti TR í gær, þrátt fyrir nýlokin Haustmót TR og Íslandsmót öldunga, sem og yfirvofandi Hraðskákmót TR í kvöld. Nokkuð var um óvænt úrslit í fyrri hlutanum. Kjartan Maack mátti þannig lúta í gras fyrir Trompowskytöfrum Jóns Eggert Hallssonar og nýbakaður Íslandsmeistari öldunga, Björgvin Víglundsson, varð að gera sér að góðu jafntefli gegn Hjálmari Sigvaldasyni sem skellti í lága drifið og tefldi grjóttraust í fyrstu umferð. Ekkert af þessu hafði hins vegar áhrif á Vigni Vatnar Stefánsson sem brá ekki vana sínum og vann með fullu húsi enn á ný. Þar munaði einna mest um sigur gegn Björgvini í lokaumferðinni í skák sem virtist í jafnvægi lengi vel. Öðru sæti náði síðan Jón Eggert sem naut sigursins gegn Kjartani sem var líka með þrjá vinninga.

Lokastöðuna má sjá á Chess results

Þriðjudagsmótin eru, eins og áður hefur komið fram, í hverri viku í vetur og hefjast kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tímamörk eru 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma og reiknast mótin til atskákstiga.