Vignir efstur á ÞriðjudagsmótiÞað var bæði fjölmennt og góðmennt á seinna þriðjudagsmóti sumarsins hjá TR sem fór fram þann 30. júlí. Tefldar voru fjórar atskákir með tímamörkunum 15/5. 23 skákmenn mættu til leiks og var skipt í tvo flokka. Áður höfðu verið gerðar tilraunir með flokkaskiptingu sem gengu misvel en nú hefur verið ákveðið að skipta í flokka fyrir miðju, taki þátt 20 manns eða fleiri. Í A-flokknum vann Vignir Vatnar Stefánsson með 3.5 vinning af fjórum mögulegum en hann gerði jafntefli í hörkuskák gegn Birni Ívari Karlssyni og vann aðra andstæðinga sína. Með þrjá vinninga voru áðurnefndur Björn Ívar auk Björgvins Víglundssonar sem er yfirleitt meðal efstu manna á Þriðjudagsmótunum. Snorri Snorrason hlaut 2.5 vinning en aðrir voru með minna. Í B-flokknum voru hvorki fleiri né færri en fjórir skákmenn með þrjá vinninga af fjórum mögulegum, þeir Hjálmar Sigurvaldason, Jóhann Arnar Finnsson, Þorsteinn Magnússon og Davíð Stefánsson, þó ekki frá Fagraskógi. Svona getur gerst í mótum með fáum umferðum en ef að það ætti að tefla sjö atskákir á einu kvöldi væru menn ekki komnir heim fyrr en um eitt!

30_7a    30_7b

Þáttakan á sumarmótunum var ánægjuleg og aldrei að vita hvort það verði prófað að halda slík mót hálfsmánaðarlega yfir sumarmánuðina þrjá á næsta ári, frekar en bara einu sinni í mánuði. Næsta þriðjudagsmót verður þann 27. ágúst næstkomandi og frá og með því móti verða þau vikulega eins og síðastliðið vor. Mótið hefst stundvíslega klukkan 19:30 í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og allir eru velkomnir. Að sjálfsögðu verður heitt á könnunni, en ásóknin í kaffið var svo mikil í kvöld að það þurfti þrjá stjórnarmenn Taflfélagsins til að hella reglulega upp á og fylla á mjólkurkönnuna!

Úrslit