Úrslit síðustu netmóta hjá TRUndanfarna daga hafa netmótin aftur farið á skrið hjá TR í ljósi samkomutakmarkana og banni á skákmótahaldi. Þangað til taflmennska í raunheimum hefst að nýju verða þriðjudagsmótin á sínum stað hjá Team Iceland á chess.com.

Gauti Páll Jónsson sigraði með fullu húsi, fjóra vinninga af fjórum, á þriðjudagsmóti TR þann 30. mars síðastliðinn. 17 skákmenn tóku þátt. Úrslit mótsins.

Róbert Lagerman sigraði með 4.5 vinning af 5 á Hraðskákmóti Öðlinga. 10 tóku þátt, mótið átti að vera sjö umferðir en því miður fækkaði kerfið umferðunum í fimm vegna fárra keppenda. Úrslit mótsins.

Á hinu glænýja Páskaeggjamóti TR sem fór fram á skírdag sigraði Davíð Kjartansson með 7.5 vinning af níu. Sérstakur útsendari TR sem hefur annan fótinn í Grímsnesi skrapp til Hveragerðis að loknu móti og færði Davíð páskaegg. Annar varð forseti Skáksambandsins Gunnar Björnsson með sjö vinninga og Róbert Lagerman þriðji með 6.5. Í barnaflokki varð efstur Adam Omarsson með sex vinninga, og næst komu Batel Goitom Haile og Gunnar Erik Guðmundsson með sex vinninga. Allir verðlaunahafar fengu páskaegg frá Nóa Siríus. 28 skákmenn tóku þátt í mótinu. Úrslit mótsins.

Kristján Geirsson sigraði með fullu húsi, fjóra vinninga af fjórum, á þriðjudagsmóti TR þann 6. mars síðastliðinn. Myndin sem fylgir fréttinni er af kappanum Krisrjáni. 15 skákmenn tóku þátt. Úrslit mótsins.

Næsta netmót verður Hraðskákmót Yrðlinga (18-39 ára) sem verður haldið á chess.com klukkan 19:30 fimmtudagskvöldið 8. apríl. Tefldar verða sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma líkt og á öðlingamótinu. Að ári liðnu verður þessu eflaust breytt í 4+2 eða 3+2 eins og vaninn er nú til dags en að þessu sinni verða tímamörkin að gamla laginu.

Hlekkur á mótið.