U-2000 mótinu lokið: Haraldur öruggur sigurvegari



IMG_7725

F.v. Tjörvi Schiöth, Haraldur Baldursson og Friðgeir Hólm.

U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur lauk í gærkveld þegar sjöunda og síðasta umferðin fór fram í húsnæði félagsins, Faxafeni 12. Haraldur Baldursson hafði fyrir umferðina þegar tryggt sér sigur og var með fullt hús vinninga þegar hinar þöglu tímavélar voru settar í gang. Baráttan um annað og þriðja sætið var hinsvegar hörð og höfðu nokkrir keppendur möguleika á að smella sér í verðlaunasæti.

IMG_7716

Halldór Atli átti ekki í vandræðum með að halda jafntefli með svörtu gegn Birni Hólm.

Það var Tjörvi Shciöth sem fékk það verkefni að eiga við sigurvegara mótsins og stýrði hann hvítu mönnunum gegn svörtum her Haraldar. Strax var ljóst að hvorugur keppenda ætlaði sér að eiga náðuga stund í lokaumferðinni með jafnteflisboð í huga. Snemma skákar myndaðist mikil spenna í stöðunni sem spratt upp úr hinu beitta Najdorf afbrigði Sikileyjarvarnar þar sem Tjörvi blés til kröftugrar sóknar. Úr varð að hvítur náði mátsókn en svartur hafði ekki hrókfært og hröklaðist svarti kóngurinn því undan stanslausum ágangi hvítu mannanna. Þrátt fyrir smá krókaleiðir hvíts þegar mát lá í loftinu var staðsetning svarta kóngsins slæm og Haraldur varð að játa sig sigraðan í fyrsta sinn í mótinu. Góður sigur sem tryggði Tjörva verðskuldað silfur, en hann hlaut 5,5 vinning, hálfum vinningi minna en Haraldur sem með sigrinum í mótinu tryggði sér, auk verðlaunafjár, þátttökurétt í næstkomandi WOW-air móti félagsins.

IMG_7719

Sigurjón fékk að svitna gegn hinum unga Stephan Briem.

Bronsið hlaut enginn annar en jaxlinn Friðgeir Hólm sem hlaut 5 vinninga og tefldi oft hressilega í mótinu eins og honum einum er lagið. Friðgeir gerði jafntefli við Gauta Pál Jónsson í lokaumferðinni þar sem sá síðarnefndi reyndi mikið að kreista fram sigur í drottningarendatafli. Gauti hafði tök á að vekja upp aðra drottningu og vera þannig með tvær dömur gegn einni dömu Friðgeirs en sá á síðarnefndi átti þó alltaf örugga þráskák og skiptur hlutur varð því niðurstaðan.

IMG_7721

Atli Mar Baldursson á framtíðina fyrir sér.

Af öðrum úrslitum umferðarinnar má nefna mjög gott jafntefli hins unga Halldórs Atla Kristjánsson gegn Birni Hólm Birkissyni hvar lokastaðan var öll Halldóri í hag. Þá lagði Arnaldur Bjarnason Ingvar Egil Vignisson nokkuð örugglega en Arnaldur átti gott mót og flýgur inn á næsta stigalista Fide. Síðast en ekki síst tefldi hinn ungi Stephan Briem afar góða skák gegn reynsluboltanum Sigurjóni Haraldssyni og hafði síst lakari stöðu lengi vel. Reynslan sagði þó að lokum til sín og eftir langa og stranga endataflsbaráttu hafði Sigurjón betur.

IMG_7714

Tjörvi kom í veg fyrir að Haraldur lyki móti með fullu húsi.

Vel heppnuðu og endurvöktu U-2000 móti er því lokið en ljóst er að mótafyrirkomulagið býður upp á skemmtilega blöndu af ungum og efnilegum skákmönnum ásamt þeim sem eldri eru og reyndari. Eftirtektarvert var hversu skemmtilegur og fjörugur stór hluti skákanna var og styttri jafntefli sáust varla, það var barist fram í rauðan dauðann. Enn og aftur sást berlega hversu mikill efniviður er til staðar í skákinni þessi misserin og mikið er um unga skákmenn sem eru í hraðri framför. Það er ekki sjálfgefið að þeir reynslumeiri leggi í hina ungu kynslóð því mörg stig eru í húfi. Þó er hluti skákmanna ávallt reiðubúinn að setjast gegnt þeim yngri og veita þeim með því tækifæri til að öðlast enn meiri reynslu og jafnvel stíga lítið eitt upp stigalistann með góðum sigrum.

IMG_7717

Hinn sókndjarfi Friðgeir Hólm lumar á mörgum trixum.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar keppendum fyrir þátttökuna og óskar verðlaunahöfum til hamingju. Við vonumst til að sjá sem flesta að ári.