Jósef Omarsson efstur á Þriðjudagsmóti!



Jósef Omarsson, fæddur 2011, gerði sér lítið fyrir og vann Þriðjudagsmótið þann 6. desember síðastliðinn. Þetta er líklega yngsti sigurvegari Þriðjudagsmóts síðan mótin hófu göngu sína að nýju fyrir þremur árum. Jósef, sem náði að bjarga jafntefli í 1. umferð með patti, tryggði sér sigur með að vinna næstu andstæðinga sína fjóra, og þeirra á meðal Kristófer Orra Guðmundsson í lokaumferðinni sem hafði þá fullt hús. Kristófer, Hjálmar Sigurvaldason og Grímur Daníelsson voru næstir með fjóra vinninga af fimm. Árangursverðalunin hlaut Sigurbjörn Hermannsson með 1129 stig en hann var með árangur upp á 1382 stig. 24 skákmenn mættu til leiks að þessu sinni.

Úrslit og stöðu mótsins má sjá á chess-results.

Þriðjudagsmótin taka ekkert jólafrí þar sem engir þriðjudagar lenda á heilögum frídögum, en það mun kannski breytast ef frumvarp Pírata um tapaða frídaga verður að veruleika!

Næsta þriðjudagsmót verður því í kvöld, þriðjudaginn 13. desember og leikar hefjast stundvíslega klukkan 19:30. Mótið í kvöld verður sýnt live á lichess, teflt verður á dgt borðunum upp á palli og lifandi skákskýringar á netinu. Nánar um það í kvöld á skak.is!

Dagskrá þriðjudagsmóta fram yfir áramót:

13. desember klukkan 19:30

20. desember klukkan 19:30

27. desember klukkan 19:30

3. janúar klukkan 19:30

… og svo framvegis!