Tveir sigrar og eitt tap í Mysliborz



Nú er langt liðið á 6. og næstsíðustu umferð hér í Mysliborz og búið er að draga til tíðinda í nokkrum skákanna.

 

Daði tapaði fyrir stórmeistaranum Leonid Voloshin eftir að hafa fengið á sig Guergenidze bræðinginn (Pirc og Caro-Kann blandað saman).  Ég hef nú sjálfur beitt þessu einhvern tíman, en (eðlilega) aldrei jafn vel og SM Voloshin, sem lokaði stöðunni og náði smám saman undirtökunum, enda virtist hann vita upp á hár hvað hann vildi.  Síðan lagðist Voloshin á stöðuna af öllum sínum þunga og að lokum féll hvíta staðan saman.

 

Einar og Aron unnu fyrirhafnarlitla sigra gegn heimamönnum.  Andstæðingur Arons, Lukasz Olszowka, er alls ekki slæmur – hann stóð t.a.m. vel gegn Matta í skák sem hann reyndar tapaði og svo gerði hann jafntefli gegn Villa.  Samt sem áður mátti hann gefast upp eftir litla 19 leiki gegn Aroni.

 

Nú rétt í þessu var Vilhjálmur knúinn til uppgjafar, eftir að hafa verið lengi undir pressu.

 

Matthías er, að venju, síðastur til að klára, en “yfirsvíðarinn” Grzegorz Stala er að reyna að leika sama leik gegn honum og gegn Villa.  Matti leitar þó taktískra færa til mótvægis og ekki er alveg ljóst hvernig þetta fer.  Tíminn er honum reyndar í óhag.

 

Torfi Leósson