Skáksveitir Taflfélags Reykjavíkur unnu allt sem var í boði á Íslandsmóti unglingasveita sem fram fór í gær. TR sendi átta sveitir til leiks, sem er met og tveimur sveitum fleira en fyrra met, sem TR átti frá því í fyrra. Á sama tíma var þátttökumet slegið í mótinu, en 20 sveitir tóku þátt. Samtals tefldu 38 krakkar fyrir hönd TR og á sama tíma voru hátt í 30 krakkar að tefla á laugardagsæfingum. Barna- og unglingastarf TR er því augljóslega í miklum blóma um þessar mundir.
Allar sveitir TR unnu gullverðlaun í sínum flokki (þ.e. besta A-sveitin, besta B-sveitin o.s.frv.) og TR átti 2 af 3 efstu og 6 af 10 efstu sveitunum. Breiddin er mikil í TR eins og þessi úrslit sýna og ljóst að það er sókn í barna- og unglingastarfinu á öllum sviðum, bæði hjá þeim efnilegustu og þeim yngstu. Einnig er gaman að sjá hvað krakkarnir upplifa sig sem mikla TR-inga og gefa kost á sér í þetta mót, þar á meðal sum sem hafa lítinn tíma fyrir skák.
Rennum hratt yfir árangur einstakra liða:
TR-H var skipuð stúlkum af stelpuæfingum TR, en það voru þær Freyja Birkisdóttir, Vigdís Tinna Hákonardóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Elsa Arnaldardóttir, Iðunn Helgadóttir og Sólveig Freyja Hákonardóttir sem skipuðu liðið. Sveitin fékk 7 vinninga og lenti í næstneðsta sæti, en það er bæting frá því í fyrra þegar stúlknasveitin fékk 3 vinninga og lenti í neðsta sæti. Enda eru stúlkurnar reynslunni ríkari núna og sumar hafa teflt á skákmótum síðasta vetur. t.a.m. Freyja sem hefur verið mjög virk. Enginn liðsmanna var eldri en 9 ára, þannig að liðið á framtíðina fyrir sér. Liðsstjóri H-sveitar var Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
TR-G var skipað mörgum yngstu liðsmönnum TR, en það voru þeir Alexander Már Bjarnþórsson, Björn Magnússon, Gabríel Sær Bjarnþórsson, Kristján Dagur Jónsson og Stefán Geir Hermannsson. Sveitin stóð sig fantavel og fékk 13 vinninga sem er næstum því 50% árangur. Ekki slæmt hjá G-sveit! Sveitin var nokkuð brokkgeng, en vann t.a.m. glæsilegan 4-0 sigur á C-sveit Hugins. Svo má ekki gleyma því að G-sveitin tefldi við báðar efstu sveitirnar í mótinu. Þrátt fyrir ungan aldur eru allir liðsmenn virkir mótaskákmenn og munu eflaust láta meira að sér kveða á komandi árum. Liðsstjóri G-sveitar var Berglind Sigurðardóttir.
TR-F var skipuð yngstu krökkunum og reynslumeiri í bland, þeim Sævari Halldórssyni, Davíð Dimitry Indriðasyni, Alexander Björnssyni, Mateusz Jakubek, Guðna Viðar Friðrikssyni og Vigni Sigur Skúlasyni. Sveitin fékk 14,5 vinning og þ.a.l. meira en 50% og skaut aftur fyrir sig mörgum A, B og C sveitum annarra félaga. Það voru hæfileikaríkir strákar sem tefldu í þessu liði, sumir þeirra eru mjög virkir, en hina vonum við að sjá meira á skákmótum á næstunni. Liðsstjóri F-sveitar var Björn Jónsson.
TR-E leiddi tríó unglingsstúlkna, þær Sólrún Elín Freygarðsdóttir, Sigrún Linda Baldursdóttir og Svava Þorsteinsdóttir og með þeim voru Ólafur Örn Olafsson og Benedikt Ernir Magnússon. Sveitin fékk 13,5 vinning og endaði í 10.sæti ,eða nákvæmlega um miðbikið. Liðsmenn eru misvirkir og því var virkilega gaman að sjá að krakkarnir gáfu sér tíma í þetta mót. Liðsstjóri E-sveitar var Guðlaug Björnsdóttir.
TR-D var blanda af reynsluboltunum Þorsteini Freygarðssyni og Andra Má Hannessyni, sem eru á sínu síðasta ári, og hinum ungu og virku Arnari Milutin Heiðarssyni og Alexander Oliver Mai. Sveitin fékk 14,5 vinning, sem er virkilega glæsilegt þegar tekið er tillit til þess að hún var viðloðandi toppinn allan tímann og tefldi m.a. við báðar efstu sveitirnar. Sveitin skaut d-sveit Hugins aftur fyrir sig svo um munaði 1,5 vinningi. Það var gaman að sjá í síðustu umferðinni að d-liðsmenn gáfu sig alla í skákirnar á móti a-liði TR sem þurfti nauðsynlega á 4-0 sigri að halda til að vinna mótið. Það fæst ekkert gefins í innbyrðisviðureignum milli TR-liða, enda eiga menn alltaf að tefla til sigurs sama hver andstæðingurinn er. Liðsstjóri D-sveitar var Torfi Leósson.
Liðsmenn TR-C eru allir mjög virkir mótaskákmen, en það voru þeir Róbert Luu, Þorsteinn Magnússon, Jón Þór Lemery, Daníel Ernir Njarðarson og Eldar Sigurðarson. Sveitin hlaut 14,5 vinning og varð 1 vinningi fyrir ofan c-sveit Hugins og rauf einskonar álög sem hafa verið á c-sveitinnni, en hún hefur farið tómhent heim undanfarin ár. Sveitin var alltaf viðloðandi toppinn og tefldi við 3 af 4 efstu sveitunum og m.a. náði Róbert Luu jafntefli við Vigni Vatnar í a-liði TR. Liðsstjóri sveitarinnar var Torfi Leósson.
TR-B var sveit sem flest félög hefðu verið ánægð með sem a-sveit sína. Sveitina skipuðu Mykhaylo Kravchuk, Jakob Alexander Petersen, Aron Þór Mai og Guðmundur Agnar Bragason. Liðið fékk 19,5 vinning og lenti í stórglæsilegu 3. sæti, hálfum vinningi á undan a-sveit Fjölnis. Það var ekki snöggan blett að finna í þessu liði og sérstaklega má nefna frammistöðu Guðmundar Agnars á 4. borði sem vann Bárð Örn í a-liði TR og gerði jafntefli við Heimi Pál í a-liði Hugins. Í siðustu umferð sýndi sveitin mikinn karakter með að vinna sína helstu keppinauta, b-lið Hugins 4-0! Liðsstjóri sveitarinnar var Björn Jónsson.
Liðsmenn TR-A gerðu sjálfir kröfu til sín um sigur og ekkert nema sigur, enda meistarar frá því í fyrra og engu verr skipaðir nú, nema síður sé.
Liðsuppstillingin var:
1. borð: Vignir Vatnar Stefánsson (6,5 af 7)
2. borð: Gauti Páll Jónsson (6 af 7)
3. borð: Björn Hólm Birkisson (6,5 af 7)
4. borð: Bárður Örn Birkisson (5,5 af 7).
Sigurinn hafðist, en tæpt var það. A-liðið byrjaði á því að tapa vinningi á móti TR-B og 2 umferðum síðar fór hálfur vinningur forgörðum á móti TR-C. Fyrir fjórðu umferð voru TR-A og Huginn-A hnífjafnar í efsta sæti með 10,5 vinninga og mættust í dramatískri viðureign. Eftir að liðin höfðu skipst á sigrum á efstu tveimur borðunum og nokkuð öruggu jafntefli á 3. borði, beindist athygli allra að 4. borði þar sem Bárður Örn stóð höllum fæti. Hann sýndi hinsvegar mikla skynsemi a la Anand, þegar hann skipti upp á drottningum til að þreyja endatafl skiptamun undir, sem honum tókst að landa í jafnteflishöfn með seiglu og útsjónarsemi. Úrslitin því 2-2, TR-A og Huginn-A hnífjöfn og þrjár umferðir eftir. Með góðri blöndu af öryggi, seiglu og útsjónarsemi tókst TR-ingum að vinna þrjár síðustu viðureignirnar 4-0, þar á meðal Fjölni-A og Huginn-B, á meðan Huginsmenn misstu niður hálfan á móti TR-B og var þar örlagavaldurinn Guðmundur Agnar að verki.
Sigurinn féll því í skaut TR, en hefði allt eins getað endað hjá Huginskrökkum.
TR-ingar voru þó svo sannarlega vel að sigrinum komnir, pistlahöfundur sá að liðsmenn náðu ekki að sýna sínar bestu hliðar út allt mótið, en vinna samt, sem er ótvírætt styrkleikamerki. Í raun má segja að þetta mót,;stemningin, umhverfið og tímamörkin, sé þess eðlis að hinir sterkari eiga gjarnan örðugt með að sýna styrkleikamuninn. Hinsvegar ber að líta á það sem mikilvæga reynslu fyrir þá.
Með sama hætti má segja að Íslandsmót unglingasveita er afskaplega góður vettvangur fyrir krakka á öllum stigum, bæði þau sem eru að taka sín fyrstu skref á skákmótum og hin sem mikla reynslu hafa á þeim vettvangi. Taflfélag Reykjavíkur hefur, með hverju árinu, lagt ríkari áherslu á mótið, við fjölgum sveitum og vinnum fleiri verðlaun, en leggjum jafnframt ríkari áherslu á félagslega þáttinn.
Sú skemmtilega hefð hefur skapast að halda sérstaka TR-sigurhátíð strax að lokinni verðlaunaafhendingu mótsins. Þá söfnumst við öll saman til að fagna, sama hver úrslitin eru – reyndar 8 gull í ár! Einnig eru veittar viðurkenningar, nokkurs konar kveðjugjafir, til krakka sem eru á sínu síðasta ári, en í ár voru það Gauti Páll, Jakob Alexander, Þorsteinn Freygarðsson og Andri Már – allt flottir strákar og miklir TR-ingar sem hófu að sækja TR-æfingar þegar þeir voru 9 ára gamlir . Sú ábending kom fram að fjórmenningarnir skildu eftir sig skörð í A-, B- og D-liðum og nú er spurning hverjir af hinum yngri verða duglegust við skákæfingarnar til að fylla í þau skörð.
Að lokum fóru allir TR-krakkar sæl heim, öll með gullmedalíu um hálsinn.
Torfi Leósson