Frá Mysliborz, við upphaf 5. umferðar



 

Mér tókst ekki að skýra frá neinum úrslitum héðan úr Mysliborz í gær, en nettengingin var eitthvað hálf-slöpp. Auk þess fór mikill tími í að fara yfir skákir drengjanna.

 

Allar skákirnar voru athyglisverðar – að einhverju leyti alla veganna. Daði vann Einar eftir að Einar misreiknaði sig snemma í miðtaflinu og lék af sér peði. Eftir það var úrvinnslan hjá Daða nánast óaðfinnanleg. Daði fær Svetlönu hina úkraínsku í dag og er í beinni útsendingu. Einar fær hinsvegar Torsten Mielke, góðvin okkar sem gistir á sama hóteli (já, það er fleira en eitt hótel í Mysliborz).

 

Aron gerði jafntefli við Konstantin Loy. Aron fékk á móti sér Nimzo-indverska vörn, sennilega í fyrsta sinn, merkilegt nokk. Fyrir skákina fórum við Aron yfir traust afbrigði fyrir hvítan sem gefur svörtum kost á að jafna taflið. Það var líka það sem gerðist, en Aron fann ágætar leiðir til að þróa taflið og eftir að báðir höfðu misst af einum eða tveimur athyglisverðum en flóknum leiðum, kom upp staða sem hvorugum gaf mikla möguleika á jafntefli. Aron tók því jafnteflisboði piltsins og stýrir í dag svörtu mönnunum á móti Serhiy Remez í beinni útsendingu.

 

Matti og Villi tefldu lengstu skákir mótsins.

Matti var að tefla Sikileyjarvörn í fyrsta sinn á ævinni og var ekki alveg nógu markviss í sínum aðgerðum, en það kom ekki að sök þar sem andstæðingurinn tefldi bitlaust afbrigði, en þó ekki alveg það sama og við höfðum stúderað fyrir. Smirnov fékk síðan smá sóknarfæri og þá var sem við manninn mælt að hann klofnaði í einhvern Fritz og fann alla bestu sóknarleikina. Matti lék eilítið ónákvæmt og þá kom Smirnovsfórn sem gerði út um taflið.  Matti fær hinn eitiltrausta Zbigniew Muc í dag með hvítu.

 

Villi virtist hinsvegar vera að pressa til sigurs gegn andstæðingi sínum, Grzegorz Stala. Meira að segja eftir að upp kom endatafl með hrókum og mislitum biskupum hélt ég að sigurmöguleikarnir væru hjá Vilhjálmi. Allt annað varð uppi á teningunum, þar sem Stala, sem sýndi ENGIN svipbrigði alla skákina, náði smám saman yfirburðunum og bjó að lokum til mátnet sem réði úrslitum.

Sannarlega lærdómsrík skák, ef ég fæ piltinn til að stúdera hana, en þá þarf ég sennilega að gera það sjálfur fyrst…

 

Vilhjálmur fær svart í dag á Lukasz Olszowka, þann hinn sama og saumaði að Matta í 3. umferð en tapaði þó.

 

Torfi Leósson