Gauti Páll Jónsson varð efstur á Þriðjudagsmóti eftir spennandi baráttu við Kristófer Orra Guðmundsson en úrslit réðust ekki fyrr en í úrslitaskák milli þeirra tveggja í síðustu umferð. Gauti varð að gera sér að góðu jafntefli gegn Adam Omarssyni í 3. umferð og mátti raunar prísa sig sælan með það en Adam hefur verið á mikilli siglingu undanfarið. Því dugði Kristóferi jafntefli í lokaumferðinni en Gauti hafði sigur þar. Þeir Kristófer Orri, Dagur Kjartansson og Helgi Hauksson fengu allir 4 vinninga en Kristófer efstur á stigum en Dagur næstefstur og þannig í 3. sæti. Þá kom áðurnefndur Adam (hann tapaði fyrir Degi í síðustu umferð) en í 6. sæti kom sá er varð að lokum efstur á frammistöðustigum, Mohammadhossein Ghasemi sem hlýtur þannig, ásamt sigurvegaranum, inneign hjá Skákbúðinni.
Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má annars nálgast hér á chess-results.
Nú tekur við hefðbundið vetrarskipulag Þriðjudagsmóta; þ.e. mót (nánast) alltaf hvern þriðjudag (sjá hér). Af því tilefni og vonandi öðru hverju) verður brugðið á það nýmæli að hafa beinar útsendingar af nokkrum borðum og jafnvel með lýsingu, ef Guð lofar. Mótið hefst, að vanda, stundvíslega klukkan 19:30, 6. september í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.