Þórir Ben heiðraður af T.R.



Þórir Benediktsson hefur verið útnefndur heiðursmeðlimur í Taflfélagi Reykjavíkur.  Stjórn félagsins mun afhenda honum formlegt skjal þess efnis ásamt heiðursorðu félagsins við hátíðlega athöfn á fimmtudagsmóti í kvöld.

Þórir er borinn og barnfæddur í Reykjavík og hefur alla sína tíð verið liðsmaður Taflfélags Reykjavíkur.  Hann hefur verið afskaplega iðinn við kolann á mótum félagsins í gegnum árin og hefur varla misst úr mót hin síðari ár.  Þá hefur Þórir unnið eitthvað smá af góðum verkum í garð félagsins ásamt því að styrkja lið þess verulega ár hvert í Íslandsmóti skákfélaga.

Stöðugleiki Þóris í skákinni er aðdáunarverður en hann hefur nú haldið jöfnum styrkleika í þónokkur ár og aðalmarkmið hans í dag er að komast yfir 2000 Elo-stig en Þórir hefur nú 1928 stig.  Aðspurður segir hann þetta vera nokkuð raunhæft markmið en mikla vinnu og eljusemi þurfi til að ná því.

Að auki hefur Þórir verið í stjórn félagsins um árabil en fyrsta stjórnarsetuár hans var 2008-2009.

Um leið og stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Þóri til hamingju með heiðursorðuna þakkar hún honum fyrir vel unnin störf og góða sigra við skákborðið fyrir hönd félagsins.