Skákdeild Fjölnis hélt Hraðskákkeppni Taflfélaga og eins og í fyrra var mótið haldið í Hlöðunni í Gufunesi. Þrettán sveitir voru skráðar til leiks en ein sveit forfallaðist á lokametrunum.
Fyrirfram hefði mátt búast við baráttu hjá Skákdeild Breiðabliks, Taflfélagi Reykjavíkur og Skákdeild Fjölnis sem voru með sterkustu liðin á pappírnum.
Strax í fyrstu umferð urðu Blikar fyrir skakkaföllum þegar þrír liðsmenn þeirra mættu of seint og misstu af fyrstu umferð þrátt fyrir góða tilburði mótshaldara til að teygja lopann! Blikarnir gerðu því 3-3 jafntefli við TR-c sem átti eftir að kosta þá töluvert.
Þrátt fyrir þessi skakkaföll verður það ekki tekið af Taflfélagi Reykjavíkur að þeir fóru með himinskautum á þessu móti. Í níu umferðum leyfðu þeir aðeins eitt jafntefli, gegn Blikum, en unnu allar aðrar viðureignir, þar á meðal gegn Fjölni.
Taflfélag Reykjavíkur a-sveit kom því í mark með 17 stig, Fjölnir unnu alla nema TR en Blikar voru eitthvað ryðgaðir og misstu niður nokkra punkta og enduðu í þriðja sæti.
Taflfélag Reykjavíkur b-sveit var besta b-sveitin og endaði hún meira að segja í 4. sæti, prýðisárangur!

B-sveit TR
Flestir stóðu sig vel hjá TR en oddafiskarnir voru Ingvar Þór Jóhannesson, Daði Ómarsson og Adam Omarsson sem allir fengu 8 vinninga af 9 mögulegum.
Mótahaldið gekk nokkuð smurt fyrir sig og þessi keppni er klárlega komin til að vera!