Í gærkvöldi fóru fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur tvær viðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga. Annars vegar öttu kappi A sveit TR og Vinaskákfélagið, hins vegar Unglingasveit Taflfélags Reykjavíkur og Skákfélag Reykjanesbæjar.
Í viðureign TR og Vinaskákfélagsins tók heimaliðið strax forystuna og lét hana aldrei af hendi. Svo fór að lokum að Taflfélag Reykjavíkur sigraði 56 ½ – 15 ½. Í liði TR fóru Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson mikinn og kræktu í 11 vinninga af tólf mögulegum. Þorvarður F. Ólafsson og Daði Ómarsson komu næstir með 10 ½ vinning af 12. Í liði gestanna stóð Róbert Lagerman sig best með 5 ½ af 8 og Sævar Bjarnason kom næstur með 3 ½ vinning úr 10 skákum. Róbert náði meðal annars að leggja tólffaldann íslandsmeistarann Hannes Hlífar að velli, og er það eina tapskák Hannesar í keppninni til þessa.
Skákfélag Reykjanesbæjar hafði nokkuð öruggan sigur gegn unglingasveit TR og sigraði 45 ½ – 26 ½. Unglingasveitin má vera stolt af frumraun sinni í keppninni og stóð sig frábærlega. Í fyrstu umferð keppninnar lagði sveitin UMSB örugglega og náði sveitin að þessu sinni að reyta marga vinninga af sterkri og þaulreyndri sveit Suðurnesjamanna. Í Unglingaliði Taflfélagsins fór Vignir Vatnar mikinn og hlaut 10 vinninga af 12 mögulegum. Hann tapaði einungis einni skák, gegn hinni gamalreyndu kempu Reykjanesbæjar Björgvini Jónssyni. Gauti Páll kom næstur með 6 ½ af 12. Bestum árangri Suðurnesjamanna náðu Jóhann Ingvason (10/12) og Björgvin Jónsson 7 ½ af 9.
Skákstjórn var í öruggum höndum Rúnars Berg og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Taflfélag Reykjavíkur vill þakka Vinaskákfélaginu og Skákfélagi Reykjanesbæjar kærlega fyrir skemmtilega og drengilega keppni.
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins